„Ekki minn tebolli að sitja við tölvuna og safna gögnum“

Joséphine stillti sér upp fyrir ljósmyndara Vikublaðsins í lok brælutímabils í byrjun vikunnar og hú…
Joséphine stillti sér upp fyrir ljósmyndara Vikublaðsins í lok brælutímabils í byrjun vikunnar og hún sagðist hreinlega ekki geta beðið eftir að komast út á sjó. Mynd/epe.

Sjómannadagurinn er ætíð sérstakur fyrir sjómenn þessa lands og fjölskyldur þeirra. Fyrir Joséphine Aussage var hann sérstaklega minnisstæður í ár en hún fór í sína fyrstu sjóferð sem skipstjóri á Íslandi þennan dag. Jo við Stsýrið

Joséphine er frá Bayonne í suðvestur Frakklandi en hefur starfað sem leiðsögumaður hjá Gentle Giants hvalaferðum á Húsavík síðan sumarið 2022 en síðast liðið haust settist hún á skólabekk með það að markmiði að ná sér í skipstjórnarréttindi fyrir rib-báta GG hvalaferða.

 Náði sér í réttindi og lærði íslensku

„Þetta var áskorun því námið fór fram á íslensku, ég er ekki alveg orðin örugg í málinu en nýtti tækifærið til að læra tungumálið í leiðinni,“ segir Joséphine og bætir við að námið hafi verið áhugavert en það hafi hjálpað sérstaklega vegna tungumálsin að hún var búin að taka þessi réttindi í Frakklandi áður.

„Það var mjög ánægjulegt að á námskeiðinu var fjölbreytt flóra fólks sem var að læra með mér. Ungir Íslendingar sem voru að stíga sín fyrstu skref á sjó en líka eldri sjómenn sem vildu ná sér í aukin réttindi eftir mörg ár sem stýrimenn. Svo voru fimm útlendingar eins og ég, þannig að það var fólk með ólíkan bakgrunn í þessu námi,“ útskýrir Joséphine en hún hefur dáðst að hvölum frá barnsaldri og hefur sá áhugi dregið hana í ýmis ævintýri í gegnum tíðina.

Enda stendur ekki á svari þegar hún er spurð að því hvað hafi dregið hana til Húsavíkur, það séu hvalirnir; þessar stórbrotnu skepnur hafsins.

Alltaf viljað hafa hvali í lífi sínu

Sverrir og Jo

Sverrir Yngvi Karlsson og Josephine í þjálfun. Mynd/Stefán Guðmundsson.

 „Ég var búin að ná mér í mastersgráðu í sjávarlíffræði enda hef ég verið brjáluð í hvali síðan ég var sex ára og hélt alltaf að ég þyrfti að verða vísindamaður til að gera það sem mig dreymdi um. Síðar komst ég að því að þó vísindin séu áhugaverð, þá var það ekki leiðin sem ég vildi fara, að sitja við tölvuna og safna gögnum er ekki alveg minn tebolli,“ segir Joséphine kímin og segir frá því að á sínum tíma hafi hún verið leiðsögumaður í Madeira, Portúgal og reyndar skipstjóri einnig á hvalaskoðunarbát.

„Síðan ákvað ég að ég vildi sjá aðrar hvalategundir. Ég hafði lengi ætlað mér til Íslands og fór í ferð um landið og eftir samtal við Jóhönnu Sigríði, mannauðsstjóra, þá bauð hún mér vinnu og ég ákvað að slá til. Þannig endaði ég hjá GG hvalaferðum sumarið 2022 og sé svo sannarlega ekki eftir því,“ segir Joséphine um tildrög þess að hún kom til Húsavíkur.

 Vinnustaðurinn eins og önnur fjölskylda

Það leynir sér ekki að Joséphine sé ánægð í vinnunni enda geislar hún af gleði. „Þetta er dásamlegur vinnustaður, við erum bara eins og ein stór fjölskylda, það er ekki önnur orð til að lýsa því,“ segir hún, lítur yfir flóann og heldur áfram:

„Fólkið hér hefur líka reynst mér ákaflega vel og ég hef notið aðstoðar við að finna út úr því hvernig ég yrði mér út um skipstjórnarréttindin og hér var stutt dyggilega við bakið á mér á þeirri vegferð. Ég hef líka getað leitað til skipstjórana með alls konar spurningar sem mig vantaði svör við og Sverrir sá um að þjálfa mig, ég er ótrúlega þakklát fyrir þetta allt saman,“ segir Joséphine.

 Ávanabindandi ástríða fyrir hvölum

Jo pg Rui

Josephine Aussage og Rui Duarte yfirleiðsögumaður, eftir fyrstu ferð hennar sem skipstjóri, á sjómannadaginn. Mynd/Daníel Annisius.

 Aðspurð hvort það sé einhver sértök hvalategund sem hún haldi upp á eða annað atriðið sem gerir það að verkum að hún sé svo heltekin af þessum mikilfenglegu sjávarspendýrum, segir hún að það sé einmitt það hvað þessi dýr komi sífellt á óvart.

„Það sem mér finnst sérstaklega gaman við þetta er að hvalir sem manni finnst kannski ekkert allt of áhugaverði, þ.e. ekki þekktir fyrir að gefa of mikið af sér; geta alltaf gert eitthvað óvænt. Eitthvað sem maður á alls ekki von á. Þó maður sé með allar sínar rútínur á hreinu, búin að undirbúa bátinn, farþegana og skipuleggja ferðina, þá veit maður samt aldrei alveg hvað er að fara gerast þegar út á sjó er komið,“ segir Joséphine og ber þennan áhuga saman við fjárhættuspil.

„Þetta er eins og að spila á spil, maður kann leikinn, maður veit hvernig á að spila en getur aldrei stjórnað því hvaða spil maður fær. Og líkt og í spilum þar sem eitthvað er lagt undir, þá er þetta líf með hvölum svolítið ávanabindandi, þegar maður hefur unnið einu sinni, þá vill maður halda áfram og vinna meira,“ segir hún og hlær. „Ég er búin að vera fíkill í hvali í mörg ár núna.“

 Prjónar eins og enginn sé morgundagurinn

Joséphine er klædd í fallega íslenska lopapeysu og þegar blaðamaður hrósar henni fyrir flíkina segir hún að peysan hafi verið gjöf frá eiginkonu eins skipstjórans hjá GG. Joséphine er þó engin aukvisi sjálf í prjónaskap en það lærði hún af móður sinni í Frakklandi. Eftir að hún kom til Íslands tók hún fljótt ástfóstri við íslenska mynstrið og prjónar eins og enginn sé morgundagurinn.

„Í Frakklandi var ég bara að prjóna einlitar peysur og hafði aldrei lært að skipta um lit, en þegar ég kom hingað og sá allar þessar litríku og fallegu peysur, þá bara varð ég að læra þetta,“ segir hún og bætir við að listina við íslensku lopapeysuna hafi hún lært af Vittoriu, ítalskri konu sem starfar með henni hjá GG hvalaferðum.

„Nú er ég líka háð prjónaskapnum og hef handavinnuna með mér hvert sem ég fer og er búin að prjóna margar lopapeysur,“ segir Joséphine og bætir við að hún hafi prjónað mikið í brælunni sem er búin vera í byrjun júní.

Aðspurð viðurkennir hún líka að það sé erfitt fyrir ástríðufulla sjófarendur að vera dag eftir dag í landi. „Jú, það er erfitt en svo mátti ég svo sem alveg við því að taka smá pásu og hægja á mér, safna orku og svo fer þetta allt á fullt aftur. Við erum enn í byrjun tímabilsins og ég á eftir að sigla margar ferðir áður en við hættum í haust. Þetta er ekki spretthlaup, heldur maraþon, og rétt eins og í maraþoni þá er mikilvægt að eyða orkunni jafnt yfir tímabilið,“ segir þessi geðþekki skipstjóri að lokum.

Þess má þó geta að áður en greinin var send í prentun á þriðjudag, tók blaðamaður bryggjurúnt í blíðuveðri og þar var engin önnur en Joséphine sem veifaði frá flotbryggjunni þar sem hún var að undirbúa bátinn sinn til siglingar.

 


Athugasemdir

Nýjast