26. júlí, 2010 - 11:36
Fréttir
„Það er nú ekki í plönunum þetta sumarið hjá okkur. Þetta hefur oft komið til umræðu en ekki verið tekinn nein
ákvörðun um þetta,” segir Elín H. Gísladóttir forstöðumaður hjá Sundlaug Akureyrar, aðspurð um hvort sundlaugin hefði
í hug að fara að fordæmi Laugardagslaugarinnar með svokallaðri sundvöku. Síðustu daga hefur Laugardagslaugin í
Reykjavík verið opin allan sólarhringinn fyrir gesti og mælst vel fyrir. „Ég hugsa að við bíðum og sjáum hvernig til tekst
í heildina hjá þeim fyrir sunnan áður en við stökkvum í að taka þetta upp hér,” segir Elín.
Hún segir það oft hafa verið nefnt á nafn undanfarin ár að hafa sólarhringsopnun fyrir gesti í 1-2 daga yfir
sumartímann. „Við vorum að tala um það nú síðast í vetur hvort við ættum að prófa þetta núna í
sumar. Þessu fylgir hins vegar mikið skipulag og mikill kostnaður og þegar það má ekki taka mikinn sjens með kostnað að þá er
þetta erfitt," segir Elín, en útilokar ekki að gestir sundlaugarinnar fái að njóta miðnætursunds í nánustu
framtíð. „Það væri mjög gaman að prófa þetta og þetta gæti vel orðið að veruleika síðar
meir þó það verði ekki í sumar,” segir Elín.