Ekkert gengur hjá Þór í fótboltanum

Þórsarar tóku á móti Reyni frá Sandgerði á þriðjudagskvöldið og lyktaði leiknum með jafntefli 1-1, nokkuð sem Þórsarar hljóta að teljast mjög ósáttir við enda Reynisliðið slakt fótboltalið sem situr í neðsta sæti deildarinnar. Heimamenn í Þór hófu leikinn af krafti og áttu m.a. gott færi fljótlega þegar Einar Sigþórsson skallaði boltann í stöng Reynismanna og þaðan fór boltinn útaf. Einnig átti Hlynur Birgisson gott vinstrifótarskot sem sveif rétt framhjá markinu.

Leikurinn var nokkuð harður, enda völlurinn blautur og bauð upp á miklar rennitæklingar og mistök. Kristján Sigurólason var tæklaður gróflega eftir um hálftímaleik og fékk leikmaður Reynis aðeins gula spjaldið fyrir tæklinguna. Rétt fyrir hálfleik hins vegar tæklaði þessi sami leikmaður svo Hlyn Birgisson og fékk hann því aðra áminningu og rautt spjald hjá Marinó Þorsteinssyni, dómara leiksins.

Þórsarar voru því einum fleiri allan seinni hálfleik og áttu flestir því von á markaveislu um leið og varnarmúr Reynismanna yrði brotinn niður. Varnarmúrinn brotnaði þegar rúmlega hálftími var til leiksloka, Ármann Pétur Ævarsson skoraði þá gott mark eftir að hafa fengið boltann einn og óvaldaður inni í teig frá Einari Sigþórssyni.

Hins vegar gerðist ekki það sem flestir áttu von á, Reynismenn jöfnuðu stuttu síðar eftir klafs í vítateig Þórsara og var það eiginlega þeirra eina umtalsverða sókn í seinni hálfleik.

Síðasta hálfltímann sóttu Þórsarar svo án afláts og komust oft nálægt því að skora en inn vildi boltinn ekki. Einar Sigþórsson átti skot í slá og markvörður Reynis varði á ótrúlegan hátt skot frá Hreini Hringssyni innan teigs.

Niðurstaðan úr leiknum því jafntefli 1-1 sem hljóta eins og áður sagði að vera gríðarleg vonbrigði fyrir Þórsara. Þeirra besti maður í leiknum var Einar Sigþórsson, hann var sífellt ógnandi með áræðni sinni innan teigs og hlýtur að teljast óheppinn að hafa ekki skorað þar sem hann skaut tvisvar í tréverkið.

Þórsarar hafa nú ekki unnið deildarleik í 10 leikjum í röð, eða síðan þeir unnu Njarðvík 2-1 á Akureyrarvellinum 1. júní sl. Næsti leikur er einmitt gegn Njarðvík á útivelli.

Nýjast