Einbúavirkjun í Skjálfandafljóti

Myndir Verkis/aðsend.
Myndir Verkis/aðsend.

„Það kemur á óvart hversu margir voru hlynntir virkjuninni, fylgi við hana hefur aukist umtalsvert frá því umræður um hugsanlega virkjun í Einbúa voru fyrst settar fram fyrir nokkrum árum. Það er stuðningur við Einbúavirkjun í öllum póstnúmerum í Þingeyjarsveit,“ segir Eyþór Kári Ingólfsson oddviti E-listans í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar um skoðanakönnun sem Maskína gerði fyrir Litluvelli ehf. um viðhorf íbúa til Einbúavirkjunar í Skjálfandafljóti. Könnunin náði til 500 þátttakenda. Íbúar Þingeyjarsveitar eru um 1.500 talsins.

Áform hafa verið uppi um gerð Einbúavirkjunar í Bárðardal um nokkurra ára skeið. Um er að ræða 9,8 MW rennslisvirkjun í Skjálfandafljóti í landi jarðanna Kálfborgarár og Einbúa í Bárðardal. Verði af framkvæmdum stendur til að nýta um 24 metra fall á um það bil 2,6 kílómetra kafla fljótsins. Markmið Einbúavirkjunar er samkvæmt matsskýrslu að stuðla að arðbærri framleiðslu rafmagns á Norðurlandi sem leitt geti til áframhaldandi vaxtar og uppbyggingar atvinnulífs á svæðinu.

Fram kemur í viðhorfskönnun Maskínu að 62% þeirra sem svöruðu töldu að virkjunin hefði góð áhrif á nærsamfélagið. Þegar spurt var um viðhorf til virkjunarinnar svöruðu um 57% að þeir væru mjög eða frekar hlynntir framkvæmdinni. Tæp 25% voru mjög eða frekar andvígir henni.

Unga fólkið ólíklegast til að hafna virkjuninni

Eyþór Kári segir að stuðningur við Einbúavirkjun hafi aukist  frá því hugmyndir voru fyrst settar fram fyrir fáeinum árum og eigi það við um öll póstnúmer í sveitarfélaginu. Minnstur sé munurinn á Laugum, en sé þó engu að síður þannig að um 50% þeirra sem svara og búa þar eru hlynntir virkjuninni og um 30% á móti. „Það sem kom mér nokkuð á óvart er mikið fylgi virkjunarinnar meðal ungs fólks í sveitarfélaginu. Það er ólíklegast að hópurinn á aldrinum 18 til 29 hafni því að virkjunin fari inn á skipulag,“ segir hann.

 Eyþór Kári Ingólfsson  oddviti E-listans í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar

Málið hefur ekki fengið formlega afgreiðslu í sveitarstjórn að sögn Eyþórs Kára en að minnsta kosti þrír fulltrúar í sveitarstjórn hafa lýst yfir vilja til að svo verði. „Við höfum nú þessa könnun sem sýnir að meirihluti íbúa, um 62% vill að virkjunin fari inn á skipulag, vilji íbúanna er mjög skýr,“ segir hann.


Athugasemdir

Nýjast