Eimskip og Kiwanis halda áfram að gefa reiðhjólahjálma

Fyrir átta árum tóku Kiwanishreyfingin og Eimskipafélag Íslands höndum saman að fyrirmynd Kiwanisklúbbsins Kaldbaks á Akureyri og gáfu reiðhjólahjálma á landsvísu. Frá upphafi verkefnisins hafa hátt í 30 þúsund hjálmar verið gefnir sex ára börnum á Íslandi, eða um 4.500 á ári.

Nýlega var þriggja ára samningur um áframhald þessa verkefnis undirritaður af Eimskip, Kiwanis og Koma, sem sér um hönnun þeirra. Hjálmarnir hafa breyst talsvert frá því að þeir voru fyrst afhentir og nýtast nú við fjölbreyttari tómstundaiðkun en áður, auk þess sem stór flötur hjálmsins virkar nú sem endurskinsmerki. Gotti Bernhöft hönnuður hefur hannað nýtt útlit á hjálmana og eru þeir nú til í sérstökum útfærslum fyrir pilta annars vegar og stúlkur hins vegar. „Hönnunin byggir á eldi og ís. Það er eldur fyrir strákana, logar í bláa hjálminum. Svo eru frostrósir og snjókorn í bleikahjálminum fyrir stúlkurnar," segir Gotti.
"Eimskip hefur lagt áherslu á að styrkja samfélagsleg verkefni og þá einkum þau verkefni sem hafa forvarnargildi og er þetta verkefni mjög gott dæmi um það," segir Ólafur Hand markaðsstjóri hjá Eimskip.

Nýjast