Sigrún María Óskarsdóttir ætlar að taka þátt í Aðgengisstrollinu sem fram fer í dag í tengslum við Evrópsku samgönguvikuna og hvetur öll til að koma og vera með. Sigrún María er Akureyringur vikunnar.
Sigrún María notar hjólastól eftir alvarlegt bílslys sem hún lenti í átta ára gömul, í Danmörku árið 2002. „Við fjölskyldan vorum á ferðalagi þegar annar bíll klessti á okkur. Ég slasaðist mjög illa og var haldið sofandi í 17 daga, að mig minnir,“ segir hún. Við slysið hlaut hún mænuskaða og lamaðist fyrir neðan nafla. „Það blæddi einnig inn á heilann, þannig að ég er með minni kraft í vinstri hendi og er spastísk í bæði vinstri hönd og fótum.“
Í dag er Sigrún María 31 árs og lærður kennari. Hún er fædd og uppalin á Akureyri, gekk í Lundarskóla og Menntaskólann á Akureyri, og lauk svo kennaranámi við Háskólann á Akureyri. „Ég byrjaði í sálfræði en færði mig yfir í kennaranám, þar sem ég hef gaman af fólki og því að kenna. Ég hélt líka að þetta væri starf sem hentaði vel fyrir manneskju í hjólastól, en komst fljótt að því í starfsnáminu að áskoranirnar voru ýmsar. Til dæmis getur verið erfitt að raða upp borðum svo ég komist á milli til að aðstoða nemendur og að skrifa á töflu, því þær eru oft mjög hátt uppi,“ segir Sigrún María sem í dag starfar hjá Símey og kennir íslensku fyrir útlendinga.
Hún segir að það hafi verið gott að alast upp á Akureyri en að ýmislegt mega laga þegar kemur að aðgengi. „Miðbærinn getur verið erfiður. Ég hef lent í því að stóllinn minn rakst í gangstéttarhellu og sporðrenndist svo ég flaug úr honum. Aðgengi í skólunum er líka misgott en Giljaskóli stendur sig best, enda með sérdeild fyrir fötluð börn. Oftast er þetta hugsunarleysi hjá fólki eða ég kýs að halda það. Að komast ekki á klósett á veitingastað af því að það eru ekki armar eða þeir eru lausir er ekki skemmtilegt.“
Aðalviðburður Evrópsku samgönguvikunnar, svokallað Aðgengisstroll, fer fram í dag, miðvikudaginn 17. september kl. 16.30 en viðburðurinn er í samstarfi við Sjálfsbjörg á Akureyri og Virk efri ár. Lagt verður af stað frá túninu í Lystigarðinum, fyrir framan LYST, og gengið að bílaplaninu við Íþróttahöllina þar sem verður boðið upp á grillaðar pylsur og samtal um upplifun þátttakenda. „Það skiptir máli að vekja fólk til umhugsunar um aðgengi fyrir okkur sem höfum einhverja hreyfihömlun. Ég held að flestir hugsi ekkert út í þetta – nema kannski þeir sem fótbrjóta sig og þurfa skyndilega að nota hjólastól.“
Sigrún hlaut einnig höfuðáverka í slysinu og á engar minningar frá lífinu áður. „Ég man ekkert eftir afa mínum, til dæmis. En stundum, þegar ég sé myndir eða heyri sögur, rifjast eitthvað upp,“ segir hún en neitar því að vera reið yfir sínum örlögum. „Alls ekki. Ég get ekki hugsað mér lífið öðruvísi. Auðvitað koma dagar þar sem ég hugsa að margt væri einfaldara ef ég væri ekki í hjólastól. En ég reyni að láta flesta mína drauma rætast. Ég hef farið bæði á Broadway og West End enda elska ég söngleiki og hef séð marga. Mig langar að sjá Hamilton, Fiðlarann á þakinu, Kinky Boots og Wicked. Ég sá Wicked á Broadway í New York og það var svo frábært að mig langar að sjá hann aftur.“
Akureyri.is segir fyrst frá