Eftirspurn eftir þjónustu Aflsins hefur aukist töluvert

Eftirspurn eftir þjónustu Aflsins, samtaka gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, hefur aukist  töluvert eins og síðustu ár. Stöðug  aukning upp á 31,8% í fjölda einkaviðtala milli ára staðfestir að mikil þörf er fyrir þjónustu Aflsins. Til að geta veitt þessa þjónustu hefur félagið þurft að ganga í gegnum erfiða endurskipulagningu.  

Félagið hefur fundið fyrir þrengingum í þjóðfélaginu eins og aðrir og hefur verið erfiðara að fá styrki bæði hjá fyrirtækjum og sveitarfélögum. Þess vegna hafa starfskonur Aflsins gefið hluta af vinnu sinni til að halda félaginu gangandi. Þær vita sjálfar af eigin reynslu hversu mikilvæg þjónusta félagsins er og vilja gera það sem þær geta til þess að sem flestir njóti hennar. Öll þjónusta við þolendur kynferðis- og/eða heimilisofbeldis og aðstandendur þeirra er þeim að kostnaðarlausu. Þetta kemur fram árskýrslu Aflsins fyrir árið 2010.

Einkaviðtöl ársins, þar með talin símaviðtöl, voru 427 talsins en voru 324 árið 2009. Aukningin var því 31,8% og hefur aldrei verið meiri. Nýir einstaklingar fyrir árið 2010 voru alls 82, konur 48, karlar 8 og aðstandendur 26. Einkaviðtöl sem flokkast sem símaviðtöl voru 63 talsins. Þá eru ekki talinn fjöldinn allur af fyrirspurnum sem bárust í viku hverri frá öllu landinu. Starfskonur Aflsins gættu þess eins og fyrri ár að síminn væri opinn allan sólarhringinn alla daga ársins.

Á árinu var undirritaður samningur við Akureyrarbæ sem gildir til 4 ára. Þetta er fyrsti samningurinn sem vitað er um sem gerður er við samtök sem þessi. Inni í þessum samningi felst m.a. aukið samstarf við ýmsar deildir Akureyrarbæjar ásamt því að félagið mun fara með forvarnarfyrirlestra í alla grunnskóla bæjarins. Aflið fær ákveðna upphæð á hverju samningsári sem að hluta til tryggir fjárhagslega afkomu félagsins. Með tilkomu samningsins er Aflinu einnig tryggt öruggt húsnæði.

Í október var haldið konukvöld í Vín til styrktar Aflinu og mættu þar á annað hundrað konur og skemmtu sér hið besta og styrktu gott málefni í leiðinni. Var það verslunin Gallabuxnabúðin hér á Akureyri sem stóð fyrir þessu skemmtilega konukvöldi. Í október réðust Skotturnar, samtök kvennahreyfinga á landinu, í sölu kynjagleraugna um allt land og fékk Aflið þá upphæð sem safnaðist hér á Akureyri.   

Að venju stóðu Aflskonur vaktina um verslunarmannahelgina og á bíladögum. Starfskonurnar voru áberandi sem fyrri ár í sjálflýsandi merktum vestum félagsins. Þessi sýnileiki dró að sér athygli fólks sem vildi fræðast um félagið og jafnvel segja sögu sína. Aflið fór með fyrirlestra á ýmsa staði á árinu og hefur eftirspurnin verið að aukast sem bendir til aukinnar umræðu og vitundar í þjóðfélaginu. Greinilegt er að fólk vill vita og fræðast um þessi málefni og hvað sé í boði í sambandi við forvarnir og fræðslu.

Vegna erfiðs árferðis þurfti félagið að fara í mikla endurskipulagningu og eftir sársaukafullan niðurskurð á öllum sviðum var ekki flúið að hætta með launaðan starfsmann. Guðrún Þórsdóttir, starfsmaður Aflsins lét því af störfum um áramót. Aflið þakkar henni vel unnin störf á þeim tíma sem hún starfaði hjá félaginu. Hún gaf félaginu mikið og vonandi fékk hún eitthvað til baka. Starfskonur Aflsins óska henni velfarnaðar og hamingju á nýjum vettvangi.

Þann 4. nóvember fóru fram hinir árlegu styrktarhljómleikar Aflsins í Akureyrarkirkju. Fjöldi listamanna gáfu þar vinnu sína, en fram komu; Bryndís Ásmundsdóttir, Rúnar Eff, Heimir Ingimarsson, Óskar Pétursson, Karlakór Akureyrar - Geysir og Kirkjukór Glerárkirkju. Hljóðkerfaleiga Akureyrar lánuðu allar græjur og Trausti M Ingólfsson sá um að allt hljómaði rétt og vel. Ekki má gleyma velvilja Akureyrarkirkju og starfsfólks hennar sem einnig gaf vinnu sína.

Mæting var að vonum góð og virðist sem þessi árlegi viðburður sé orðinn fastur punktur í lífi marga. Mikinn hlýhug var að finna hjá öllum þeim sem komu að tónleikunum og buðu allir fram vinnu sína að ári, segir í árskýrslunni.

Í byrjun ársins fóru 2 sjálfshjálparhópar af stað og aðrir 2 um haustið. Venjan er að 6 til 8 konur séu í hverjum hóp. Hver hópur fer yfir 17 atriði sem tengjast afleiðingum kynferðis- og/eða heimilisofbeldis. Hópurinn hittist 13-15 sinnum í 4-5 klst. í senn. Ákveðið var að gera tilraun með framhaldshóp sem er með öðru sniði en fyrirkomulag sjálfshjálparhópa bíður upp á. Það tókst vel og unnið er að frekari endurbótum á þessu kerfi.

Margir góðir gestir kíktu í vöfflur til Aflsins á árinu, má þar konur frá Kvenfélaginu Hlíf, Zonta og Soroptimismar. Námsráðgjafara og skólahjúkrunarkonur komu líka, Lögreglan og frambjóðendur í bæjarstjórnarkosningunum. Í október var Aflið með opið hús og komu um 30 manns í heimsókn og hlustuðu á fyrirlestur Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur um bók hennar Á mannamáli. Í október ákváðu Aflskonur að prófa að vera með opið hús klukkutíma á dag, og var það gert út nóvember. Það voru ekki margir sem nýttu sér það, en þeir sem komu fannst þetta notalegt. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að gera þetta aftur, segir ennfremur í árskýrslu Aflsins fyrir árið 2010.

Nýjast