Þetta kemur m.a. fram í bókun frá fundi Almannaheillanefndarinnar á Akureyri, sem haldinn var fyrr í þessum mánuði. Þar kemur jafnframt fram að skólastarfið í grunnskólunum fari vel af stað og ekki líti út fyrir að fækkun sé í aðsókn að hádegismat. Athugasemdir hafa komið vegna kostnaðar við bókakaup nemenda og hugsanlega verður því mynstri breytt í framtíðinni, segir ennfremur í bókun nefndarinnar.
Hjá Vinnumiðlin er það að frétta að nýjar reglur um nám samhliða atvinnuleysisbótum hafa litið dagsins ljós. Nokkuð stór hópur 20-30 ára er að fara í námsúrræði í samvinnu við SÍMEY og fleiri úrræði eru í vinnslu. Í Glerárkirkju hefur verið eftirspurn eftir meiri sálgæslu og fleiri hjónaviðtöl sem virðast þó ekki endilega vera krepputengd. Hjálparstarf kirkjunnar hefur tvöfaldast á landsvísu. Minni aðsókn var hjá Akureyrarkirkju í skólabókaðstoð en búist var við en tvöföldun hefur verið í mataraðstoð og eru þar öryrkjar og einstæðir foreldrar stærsti hópurinn. Allar beiðnir um aðstoð eru metnar í Reykjavík, segir m.a. í bókun frá fundi Almannaheillanefndar.
Jóna Berta Jónsdóttir frá Mæðrastyrksnefnd mætti á fund nefndarinnar og kom fram hjá henni að mikið var um styrkbeiðnir sl. vetur og fengu um 400 heimili í Eyjafirði aðstoð fyrir síðustu jól en árið áður voru það tæplega 300 heimili. Veittur er stuðningur að jafnaði kr. 10.000- pr. fjölskyldu pr. mánuð en til eru undantekningar á þeirri vinnureglu. Samtals úthlutaði nefndin 8,5 milljónum króna á sl. ári. Margir sækja á alla staði sem bjóða aðstoð. Aukning er á fólki í óreglu sem leitar eftir aðstoð og margt ungt fólk kann ekki fótum sínum forráð. Mæðrastyrksnefndin annast fjárhagslega aðstoð fyrir Rauða Krossinn og fær vinnuaðstoð þaðan og frá Einingu-Iðju eftir þörfum. Á fatamarkaðnum eru aðallega gefin föt en þeir sem geta greiða fyrir, segir í bókun Almannaheillanefndar.