Dúndurfréttir og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands flytja The Wall

Laugardagskvöldið 5. febrúar verða tónleikar í Hofi þar sem Dúndurfréttir og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands flytja The Wall, eftir Roger Waters og Pink Floyd. Einnig koma fram á tónleikunum Karlakór Dalvíkur og stúlknakór sem skipaður er nemendum Tónlistarskólans á Akureyri.   

Haraldur Vignir Sveinbjörnsson sá um að útsetja verkið fyrir sinfóníuhljómsveit. Stjórnandi  er Guðmundur Óli Gunnarsson. Tvennir tónleikar verða haldnir um kvöldið, hefjast þeir fyrri kl. 20:00 og þeir seinni kl. 23:00. Hljómplatan The Wall með Pink Floyd var gefin út árið 1979. Platan var tvöföld enda verkið langt og yfirgripsmikið. Það er hugafóstur bassaleikara Pink Floyd, Roger Waters, og er að einhverju leyti byggt á hans eigin lífsreynslu.

Verkið segir í stuttu málið frá Pink, manni sem er við það að missa tökin á lífinu og raunveruleikanum. Í æsku hafði hann misst föður sinn í seinni heimsstyrjöldinni og verið ofverndaður af móður sinni en hæddur af kennurum sínum í skóla. Hann verður svo rokkstjarna sem missir tökin á hjónabandi sínu og lífi og fer smátt og smátt að byggja ímyndaðan vegg í kringum sig. Hvert áfall í lífi Pink er einn múrsteinn í Vegginn. The Wall hefur selst í meira en 23 milljónum eintaka í Bandaríkjunum einum og er enn þann dag í dag ein mest selda hljómplata í heiminum.

Hljómsveitin Dúndurfréttir var stofnuð í október árið 1995. Sveitin spilaði fyrstu fimm árin nær eingöngu á veitinga- og skemmtistaðnum Gauki á Stöng einu sinni í mánuði. Þar spiluðu þeir drengir sig saman og fínpússuðu lagavalið. Tilviljun ein réð því að fjórar hljómsveitir, Pink Floyd, Led Zepplein, Deep Purple og Uriah Heep eru meginuppistaða þeirra laga sem þeir spila..

En árið 2000 langaði þá til að gera eitthvað „grand" og þá dugði ekkert minna en Borgarleikhúsið og verkið The Dark Side Of the Moon eftir Pink Floyd varð fyrir valinu. Ráðist var í verkefnið án þess að hafa hugmynd um hvort fólk væri fáanlegt á stóra tónleika þar sem verk erlendra höfunda væri flutt af innlendri hljómsveit. Áhættan borgaði sig og þeir félagar héldu tvenna uppselda tónleika á einu kvöldi. Næst var bókstaflega ráðist á vegginn og The Wall flutt í heild sinni. Fernir uppseldir tónleikar á tveimur kvöldum.

Eftir það var ekki aftur snúið. Síðan þá hefur sveitin haldið hverja  stórtónleikana á fætur öðrum. Má þar nefna Led Zeppelin tónleika í Borgarleikhúsinu síðasta sumar og Jesus Christ Superstar, ásamt gestum,  einnig í Borgarleikúsinu í síðastliðnum október þar sem Dúndurfréttir héldu upp á 15 ára starfsafmæli sitt.

En alltaf blundaði í þeim að flytja verk Pink Floyd, The Wall, með sinfóníuhljómsveit og sumarið 2007 létu þeir ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands til skarar skríða og fluttu verkið tvisvar ásamt Skólakór Kársness fyrir fullri Laugardalshöll.

Og nú er komið að því að flytja verkið í nýju og glæsilegu menningarhúsi Akureyringa, Hofi, ásamt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sem á þessum tónleikum er að fara inná nýjar brautir og reynir fyrir sér í rokkinu.

Nýjast