"Við leggjumst alfarið gegn því að bæjarsjóður skuldbindi sig með þeim samningi sem hér er lagður fyrir. Við minnum á að fjárhagsáætlun ársins 2011 gerir ráð fyrir að bæjarsjóður verði rekinn með 385 milljón króna halla og ef ekki verða breytingar á ytra umhverfi má búast við að skera þurfi verulega niður í rekstri bæjarsjóðs á árinu 2012.
Alkunna er að meirihlutinn hefur opinberlega lýst því yfir að hann leggi mikla áherslu á að standa vörð um velferð og grunnþjónustu. Því skýtur skökku við að á sama tíma og gert er ráð fyrir verulegum niðurskurði á framlögum til skólamála, eigi að auka útgjöld bæjarsjóðs vegna þessa verkefnis. Þrátt fyrir afstöðu okkar styðjum við fyriráætlanir um uppbyggingu ökugerðis og akstursíþróttasvæðis Bílaklúbbs Akureyrar en aðkoma bæjarins er að okkar mati ekki réttlætanleg eins og sakir standa."
Ólafur Jónsson D-lista lagði fram bókun svohljóðandi:
"Á síðasta kjörtímabili var lögð gríðarleg vinna í deiliskipulag fyrir nýtt svæði Bílaklúbbsins á Glerárdal og samtímis gekk bærinn í uppkaup á landi á svæðinu og var því allt til reiðu að hefja framkvæmdir sl. vetur. Viðskiptaáætlun Bílaklúbbsins gerði ráð fyrir aðkomu einkaaðila að uppbyggingu á svæðinu, en því miður hefur það ekki gengið eftir. Nú er lagt upp með það að í fyrstu verði þetta allt á hendi Bílaklúbbsins og þar með ljóst að ekki verður hægt að halda áfram við nauðsynlegar framkvæmdir nema með aðkomu bæjarfélagsins. Starfsemi Bílaklúbbsins hefur vaxið mikið á undanförnum árum og áhugi á íþróttinni að sama skapi, það er því mikilvægt að skapa klúbbnum varanlega aðstöðu þannig að starfsemin færist inn á sérhannað svæði og þar með af götum bæjarins. Í annan stað er mjög mikilvægt að byggja upp tímanlega ökugerði þannig að ungmenni hér á svæðinu geti sótt nauðsynlegan og lögboðinn æfingaakstur á viðurkenndu svæði."
Fulltrúar L-lista Oddur Helgi Halldórsson, Geir Kristinn Aðalsteinsson og Halla Björk Reynisdóttir taka undir bókun Ólafs Jónssonar D-lista og vilja ítreka mikilvægi þess að koma upp ökugerði hið fyrsta á svæðinu.