Deildarbikarinn á loft í kvöld í Höllinni

Það verður söguleg stund í kvöld þegar deildarmeistaratitillinn í N1-deild karla í handbolta fer á loft í Höllinni á Akureyri eftir leik Akureyrar og Aftureldingar í næstsíðustu umferð deildarinnar sem hefst kl. 19:30. Þetta er fyrsti titillinn í stuttri sögu Akureyrar Handboltafélags. Afturelding er í harðri botnbaráttu við Selfoss um sjöunda sæti deildarinnar þar sem liðin eru jöfn með átta stig en Akureyringar hafa 31 stig á toppnum.

Því munu Mosfellingar eflaust selja sig dýrt í kvöld. Sama hvernig fer mun bikarinn hins vegar fara á loft í Höllinni. 

 

„Við ætlum okkur að taka við bikarnum eftir sigurleik og það verður ekki leiðinlegt að gera það fyrir framan fulla höll af okkar áhorfendum sem hafa stutt vel við bakið á okkur í vetur. Okkar stuðningsmenn eiga þetta jafn mikið eða ekki meira skilið en við,” segir Heimir Örn Árnason fyrirliði Akureyrar.

Leikir kvöldsins í N1-deildinni:

kl. 19.30 Akureyri – Afturelding | Höllin Ak.
kl. 19.30 FH – Haukar | Kaplakriki
kl. 19.30 Fram – HK | Framhús
kl. 19.30 Valur – Selfoss | Vodafone höllin 

Rætt er við þá Heimi Örn Árnason og Atli Hilmarsson þjálfara Akureyrar í Vikudegi í dag.

Nýjast