Dagvistun og öldrunarmál brenna á fólki fyrir kosningar

Séð yfir Dvalarheimilið Hlíð á Akureyri.
Séð yfir Dvalarheimilið Hlíð á Akureyri.

Málefni mennta- og dagvistunarmála og málefni aldraða og velferðarmál brenna helst á fólki fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar í vor á meðal bæjarbúa á Akureyri. Þetta sýna niðurstöður könnunar sem Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri framkvæmdi fyrir Vikudag.

Spurt var: Hvaða málefni eru mikilvægust að þínu mati fyrir bæjarstjórnarkosningarnar þann 26. maí nk.? Svarendur voru beðnir um að velja þrjú málefni. 

Helstu niðurstöður eru þær að 45% svarenda nefndu mennta- og dagvistunarmál, velferðarmál og málefni aldraða. 35% nefndu húsnæðismálin, rúm 24% skipulagsmál og fjármál og 23,5% umhverfismál.

Könnunin var framkvæmd á tímabilinu 23. apríl til 4. maí. Haft var samband í gegnum tölvupóst og fengust 663 svör. Svarhlutfallið var 62%.

Úrelt húsnæði í öldrunarmálum og allt of fá leikskólapláss

Vikudagur hefur fjallað töluvert um málefni aldraða og leikskólamálin á Akureyri í vetur. Meðal annars hefur blaðið sagt frá því að húsnæði Dvalarheimilisins Hlíðar sé ábótavant og standist ekki nútímakröfur. Þá er þröngt fyrir íbúa á Hlíð og erfitt fyrir fólk að athafna sig ef viðkomandi íbúi þarf að nota hjálpartæki, sem og fyrir starfsfólk að komast að við umönnun.

Þar sem minnstu herbergin eru deila tveir íbúar snyrtingu eða jafnvel tíu íbúar með þrjár snyrtingar. Þá hefur blaðið fjallað um óánægju foreldra vegna dagvistunarúrræða á Akureyri þar sem margir foreldrar komast ekki með börnin sín á leikskóla fyrr en um tveggja og hálfs árs aldur. Eftir áramótin fékk Akureyrarbær úthlutað plássi á leikskólum hjá sveitarfélögunum í kring til að koma börnum að.


Nýjast