Dagur tónlistarskólanna í Hofi

Dagur tónlistarskólanna verður haldinn um land í dag. Líkt og undanfarin ár mun Tónlistarskólinn á Akureyri halda upp á daginn með glæsibrag þar sem fjölmargir tónleikar fara fram í Menningarhúsinu Hofi ásamt öðru tónlistartengdu efni. „Þetta er jafnan stærsti viðburðurinn hjá okkur ár hvert. Við reynum að virkja sem flesta nemendur tónlistarskólans til að eiga glaðan dag saman og bjóða upp á góða tónlist,“ segir Magna Guðmundsdóttir deildarstjóri hjá Tónlistarskólanum á Akureyri.

„Við erum með nemendur frá fimm ára og uppúr þannig að þarna verður fólk á öllum aldri. Þetta er alltaf skemmtilegt og það er mikill spenningur í nemendum. Við hvetjum fólk til þess að mæta.“

Tónleikar verða í Hamraborg og í Hömrum í Hofi frá kl. 10:00 og langt fram eftir degi. Einnig verður hljóðfærakynning kl. 11:00 í Hamraborg. Þá verða kennslustofur opnar milli k. 12:00 og 14:00 en samhliða því fer fram ratleikur þar sem svara þarf léttum spurningum sem tengjast hljóðfærum.

throstur@vikudagur.is

Nýjast