Þetta kom fram á síðasta fundi Almannaheillanefnd Akureyrar nýlega. Þar kom einnig fram að breytt atvinnuástand veldur því að auðveldara er að fá fólk til starfa við úrræði í barnavernd. Úrræðin eru veika hliðin í barnaverndarmálum en auðveldara er að fá fólk til starfa. Nýtt úrræði - meðferð utan stofnana - er að fara af stað með fjárstuðningi frá Barnaverndarstofu.
Mikil aukning var í aðsókn hjá Aflinu á síðasta ári en breytingar hafa verið gerðar á starfseminni með því að taka á málum sem tengjast heimilisofbeldi. Fjórir sjálfshjálparhópar eru að fara af stað en auk þeirra eru einkaviðtöl í boði ásamt forvarnarstarfi sem er vaxandi þáttur í starfinu. Fjármagn er af skornum skammti og stefnir í um 500.000- kr. halla um áramót. Greiðslur til starfsmanna eru að aukast smám saman. Mörg mál sem tengjast heimilisofbeldi eru ljót en það ofbeldi skilar sér oft seint inn. Forvarnarstarf virðist vera að skila sér en rætt var um að hverju forvörnin ætti að beinast. Nauðsynlega vantar túlkaþjónustu inn í starfið vegna þjónustu við innflytjendur sem leita til Aflsins. Fram kom að lögreglu finnst vera meira um heimilisofbeldi og erfitt sé að hafa stjórn á tölvunotkun unglinga. Hömlur virðast vera að minnka í samfélaginu.
Fram kom að gerendur í kynferðisofbeldi væru margir ungir og að ungar stúlkur í neyslu séu í mikilli hættu. Þær koma oft mjög seint inn með sín mál. Dæmi voru nefnd um ofbeldi á ungu fólki sem rekja má til opinna skrifa þeirra á Facebook. Í grunnskólum hefur verið almenn fræðsla í kynferðismálum en vantað hefur í mörgum tilvikum sérstaka fræðslu um kynhegðun. Ef réttlæti almennt nær ekki fram að ganga minnkar traust almennings á réttarkerfinu.
Fram kom á fundinum að lítil viðbrögð hafa verið frá foreldrum vegna skerðingar á þjónustu í leik- og grunnskólum. Svo virðist sem mál í grunnskólunum hafi þyngst og taki lengri tíma að leysa. Vart verður við meiri óróleika hjá börnum og unglingum og aukið virðingarleysi, en ekki hefur verið hægt að tengja það ástandinu sem slíku. Rætt var um frí nemenda vegna veikinda kennara og hvernig væri brugðist við því innan skólanna. Fram kom að stjórnendur í atvinnulífinu töldu að vinnusiðferði hefði aukist. Aðsókn til lækna á HAK hefur heldur dregist saman og farið er að bera á frestun tíma fram yfir mánaðarmót. Bið í fjölskylduráðgjöf hefur ekki lengst en starfsfólki finnst sem endalausar hamfarafréttir fari heldur illa í börn.
Hjá verkalýðsfélögunum er lítið nýtt að frétta. Helst er kvartað yfir seinagangi lögfræðinga að skila af sér vegna launamála í þrotabú fyrirtækja. Flest fyrirtæki sem hafa farið í þrot hafa samt sem áður staðið skil á launagreiðslum. Aðsókn í styrki frá kirkjunum heldur áfram að aukast og er þar helst um að ræða öryrkja, atvinnulausa og einstæðar mæður. Fólk virðist fúsara að tjá sig en áður. Rætt var um að bjóða fulltrúa Hjálparsjóðs kirknanna á fund nefndarinnar verði hann á ferð hér á næstunni. Brottfall nemenda í VMA er svipað og undanfarin ár. Samband er haft við foreldra ungmenna undir 18 ára aldri ef þau hætta í námi. Aukning virðist vera á kvíða og þunglyndi nemenda og strákar virðast festast í netfíkn. Verkefnastjórum hefur verið sagt upp sínum hlutverkum. Engir peningar eru til að ráða hjúkrunarfræðinga í framhaldsskólana. Gat virðist vera komið í peningamálin hjá Rauða Krossinum en áfram er aukning eftirspurnar í föt. Mæðrastyrksnefnd vantar fjármuni í lok nóvember ef svona heldur áfram.
Á Sjúkrahúsinu á Akureyri er unnið að undirbúningi niðurskurðar fyrir næsta ár. Ný göngudeild hefur tekið til starfa og er það vel. Á slysadeildinni virðist vera meiri aðsókn en áður af ungu fólki með geðræn vandamál. Í rannsókn fyrir 5 árum kom fram að stór hluti framhaldsskólanemenda með geðræn vandamál virðist þjást af kvíða. Meðferð á kvíðaröskunum virðist skila árangri, segir í bókun Almannaheillanefndar.