„Þetta er bara bölvuð vitleysa og léleg tilraun hjá SR til þess að vinna titilinn á tækniatriðum,” segir Sigurður Sveinn Sigurðsson leikmaður Skautafélags Akureyrar í samtali við Vikudag. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í morgun hefur SR kært SA vegna þátttöku Josh Gribbens þjálfara SA í úrslitakeppninni. Í frétt Morgunblaðsins segir að í kæru SR sé vísað til reglugerðar ÍHÍ nr. 10.7.2.
Sú regla kveður á um að erlendir leikmenn þurfi að spila einn leik í hverri umferð í deildarkeppninni til þess að vera löglegir í úrslitakeppninni en í deildarkeppninni er leikin fjórföld umferð. Þetta ákvæði á þó ekki við ef um meiðsli eða leikbönn er að ræða en Gribben hefur verið að glíma við meiðsli. Í kærunni er bent á að Gribben hafi leikið fimm leiki í deildinni í vetur, þrjá með SA Jötnum og tvo með SA Víkingum.
Sigurður gefur lítið fyrir þessi rök og segir þetta einfaldlega rangt.
„Það er greinilegt að þeir hafa ekki gefið sér tíma til þess að lesa reglugerðirnar. Þetta stenst engan veginn. Við höfum ekki gert neitt rangt og því höfum við engar áhyggjur af þessu. Þetta er einfaldlega lélegt útspil hjá SR til að hanka okkur á einhverjum tækniatriðum. Það er kannski bara fínt að þeir séu að eyða púðri í þetta fyrir kvöldið á meðan við erum að undirbúa okkur fyrir leikinn,” segir Sigurður.
Leikur SA og SR hefst kl. 19:00 í kvöld í Skautahöll Akureyrar. Íslandsmeistarar verða krýndir í kvöld en svo mun kærumálið fara sína leið.