Bókin Oddeyri, saga hús og fólk.

Bókin Oddeyri, Saga, hús og fólk   Myndir   MÞÞ
Bókin Oddeyri, Saga, hús og fólk Myndir MÞÞ

Kristín Aðalsteinsdóttir og Arnór Bliki Hallmundsson sendu frá sér bókina Oddeyri, Saga, hús og fólk á liðnu sumri. Fjölmenni mætti í útgáfuhóf sem efnt var til í Oddeyrarskóla og segja þau mætingu hafa farið fram úr björtustu vonum. Viðtökur hafi verið góðar, mikil og góð sala, einkum fyrstu vikur eftir útkomu. „Við stefnum á að taka fullan þátt í „jólabókaflóðinu,“ segja þau og eru glöð með hvað fólk er  almennt ánægt með bókina og framtakið.

„Það virðist mikill áhugi á Oddeyrinni, hvort heldur sem er meðal núverandi íbúa eða brottfluttra enda margir sem eiga beinar eða óbeinar tengingar við svæði og eða ættartengsl, ýmist við Eyrina eða ákveðin hús,“ segja þau og telja það eðlilegt þar sem fólk hefur búið á Oddeyri í meira en 150 ár.

 Þurfti ekki að hugsa mig um

 Kristín gaf út bókina Innbær, hús og fólk árið 2017, þar sem tekin voru viðtöl við um 80 manns, íbúa í elsta bæjarhluta Akureyrar. Þeirri bók var sérstaklega vel tekið og er hún nú ófáanleg. Sumarið 2022 lagði hún drög að sams konar bók um Oddeyri, annað elsta hverfi bæjarins og flaug þá í hug að skrif Arnórs Blika um hús á Oddeyri féllu vel að hennar hugmynd. Hún hafði samband og viðraði hugmyndina og skemmst frá því að segja að honum leist vel á slíkt samstarf.

„Kristín hringdi í mig í ágúst í fyrra og ég þurfti aldeilis ekki að hugsa mig um. Ég sá að loksins hafði opnast tækifæri til að koma einhverjum af þessum skrifum mínum á prent. Ég hafði lengi verið hvattur til þess, en aldrei lagt í það,“ segir Arnór.

 Viðtöl við 55 íbúa

 Þau Kristín og Arnór sendu bréf til íbúa á Oddeyri, greindu frá hugmynd að bókinni og reyndu að fá í það minnsta þrjá til fjóra viðmælendur úr hverri götu sem búið er við. Þau taka fram að aldrei hafi staðið til að fjalla um hvert einasta hús á Oddeyri og viðtöl voru einungis tekin við núverandi íbúa og þá sem svöruðu bréfinu. Þannig sé ekki um  ítarlega, allsherjar sögulega umfjöllun um Oddeyrina í heild að ræða.  Í allt voru tekin  55 viðtöl við íbúa, skrifuð söguágrip húsa viðmælenda auk rúmlega 20 söguágripa um nokkur elstu hús Oddeyrar.

 „Viðtökurnar við erindi okkar voru góðar,“ segir Kristín  um upphafið og að þau Arnór hafi í kjölfarið hafist handa. Hann skrifaði sögulega þætti um hús fólksins og hún heimsótti þá sem voru tilbúnir að vera með, einstaklinga og fjölskyldur. „Við spjölluðum saman um lífið í húsinu, lífið á Eyrinni og ég tók myndir bæði af fólki og húsum. Frásagnir íbúanna eru ólíkar, þær snerta sumar hverjar sögu fólksins, eða eitthvað sem gerðist í húsinu, endurgerð þess eða atburði sem tengjast lífinu á Eyrinni, sumir rifja upp bernskuminningar eða eitthvað allt annað,“ segir Kristín. Með örfáum undantekningun fær hvert hús sem um er fjallað eina opnu í bókinni. Þar er að finna frásögn íbúanna, mynd af fólkinu og húsinu, stutta sögu húsanna eða eingöngu sögulegan fróðleik um húsin og mynd af því . „Ég er þakklát því fólki sem var tilbúið að taka á móti mér og segja mér sögu sína,“ segir hún.

Kristín Aðalsteinsdóttir og Arnór Bliki Hallmundsson hafa gefið út bókin Oddeyri, saga, hús og fólk. Hér eru þau á ferðinni í einni af elstu götum hverfisins, Lundargötu.

Nýjast