Bókanir fyrir sumarið gengið vel

„Bókanir hafa gengið gríðarlega vel," segir Kristín Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Iceland Express, en flugfélagið mun líkt og undanfarin sumur bjóða upp á áætlunarflug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar. Að sögn Kristínar verður flogið einu sinni í viku yfir sumarmánuðina, júní, júlí og ágúst og er flogið á laugardögum.  

„Þessari flugleið hefur verið haldið úti síðan árið 2006, en aðeins á sumrin.  Við höfum þó reyndar stundum flogið á milli þessara áfangastaða  um jól og áramót," segir Kristín.  „Þetta áætlunarflug hefur sannarlega verið að vinna sér sess meðal Norðlendinga.  Okkur er það keppikefli að halda úti þessari flugleið á sumrin og bjóða Norðlendingum þessa þjónustu. Henni hefur verið afar vel tekið sem sést best á því að þetta er sjötta sumarið okkar," segir hún.  Mun hagstæðara er fyrir Norðlendinga sem eiga leið til Kaupmannahafnar að fljúga beint frá sínum heimabæ að sögn Kristínar, bæði er það ódýrara og eins sparast við það tími. „Síðast þegar ég gerði verðsamanburð og tók með í reikninginn flugið frá Akureyri til Reykjavíkur og svo ferðalagið frá Reykjavík til Keflavíkur, þá var mun hagstæðara fyrir íbúa á Akureyri að taka þetta beina flug miðað við að fara frá Keflavík, fyrir utan tímasparnaðinn," segir Kristín.

Nýjast