Boðað til íbúafunda vegna sameiningar

Bakkafjörður í Langanesbyggð. mynd/ Markaðsstofa Norðurlands
Bakkafjörður í Langanesbyggð. mynd/ Markaðsstofa Norðurlands

Samstarfsnefnd um sameiningu Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps hefur boðað til samráðsfunda um fyrirhugaða sameiningu sveitarfélaganna sem kjósa á um í lok mars næstkomandi. Markmið fundanna er að kynna verkefnið fram undan, heyra sjónarmið íbúa og fá fram spurningar, áður en lengra er haldið.

Þrír fundir verða haldnir og fer sá fyrsti fram á morgun þriðjudag kl 17:00 – 18:30. Þar verður ferlið fram undan kynnt auk þess sem umræða um atvinnumál, nýsköpun og stofnun sjóðs um jarðir sveitarfélaganna verður á dagskrá.

Á miðvikudag á sama tíma verða fjármál og þjónusta mögulega sameinaðs sveitarfélags til umræðu.

Þriðji fundurinn verður svo á fimmtudag en efni þess fundar verður stjórnskipulag sameinaðs sveitarfélags og sameiginleg hagsmunamál gagnvart ríkinu.

Sameiningarnefnd mun koma saman í stjórnsýsluhúsinu á Þórshöfn, en ráðgjafar munu tengjast um fjarfundabúnað. Íbúar geta valið um að mæta í stjórnsýsluhúsið á Þórshöfn, í Svalbarðsskóla, á Skólagötu 5 á Bakkafirði (gamli grunnskólinn), eða fylgst með heima.

Slóð inn á fundina verður aðgengileg á heimasíðum sveitarfélaganna og á Facebooksíðu Langanesbyggðar.


Athugasemdir

Nýjast