Björgvin Guðmundsson og Rjúpnafell

Valgeir Sigurðsson skrifar

Það gladdi mig mjög þegar ég las í Mogganum "mínum" 6. janúar s.l., að nokkur hópur manna hefði bundizt samtökum um að heiðra minningu Björgvins Guðmundssonar tónskálds á stórafmæli hans, en 26. apríl næstkomandi verða hundrað og tuttugu ár liðin frá því að hann leit fyrst dagsins ljós.

Mig langar að mega leggja þar örfá orð í belg, og ber margt til þess. Í fyrsta lagi fæddist Björgvin og ólst upp á næsta bæ við fæðingastað minn í Vopnafirði, - innar í dalnum - auk þess var hann náskyldur móðurföður mínum, og rækti þetta fólk ávallt vináttu með  frændsemi.

Og svo er það nú Rjúpnafell. Svo mjög var Björgvin fast-tengdur fæðingarbæ sínum og æskustöðvum, að okkur sveitungum hans kemur hann varla svo í hug, að Rjúpnafell fylgi ekki með. Og fallegt er Rjúpnafellið, þótt ekki sé það hátt, "af fjalli að vera"! Stílhreint og frítt og vel skapað frá náttúrunnar hendi.  Undir fellinu kúrir svo bærinn, í skjóllegri hvilft, á bezta -og raunar eina- bæjarstæðinu sem um er að ræða, því að þar er góður bæjarlækur, hinn eini þar um slóðir sem nothæfur væri til neyzlu.

Mörg spor átti ég í landi Rjúpnafells í gamla daga, einkum eftir að bærinn var kominn í eyði og við feðgarnir orðnir einir eftir með fjárgæzluna í Fremri-Hlíð. Sauðfé sækir alltaf inn til dala og heiða, og notar til þess hvert færi sem gefst. Oft stanzaði ég líka á Gildrumelnum eða í Seldysjunum og horfði suður með Rjúpnafellinu, þar sem Björgvin segir að heiti Hjallar og Kinnar, en ekki voru mér þau nöfn sérlega töm í æsku. En alltaf hefur mér þótt það svæði fallegt, hvað sem það heitir.

Ég sagði áður, að okkur Vopnfirðingum kæmi ekki Björgvin Guðmundsson svo í hug, að Rjúpnafell fylgdi ekki  með. Þetta var ekki ofmælt. Þegar Þorsteinn skáld Valdimarsson yrkir sitt gullfallega afmælisljóð til Björgvins, þá fer hann strax að tala um - hvað - Rjúpnafell! Enda heitir kvæðið Að Rjúpnafelli. Mikið óskaplega var þetta vopnfirzkt!  Og rökrétt. 

Láttu saggasveitta veggi

sjatna, bæjarhró;                                                                          

barnið þitt í heimi hljóma

hærra ris þér bjó.

Svo vel vill til að ég veit frá fyrstu hendi hvernig þetta fagra ljóð varð til. Höfundurinn sagði mér það sjálfur á góðri stund sem við áttum saman. Hann sagði: Ég létti mér þetta verk með því að yrkja kvæðið við gamalt fallegt lag, sem við Björgvin höldum að sé upp runnið á Austurlandi. - Svo raulaði hann lagið fyrir mig, en það er nú löngu horfið úr minni mínu.

Vissulega er það fagnaðarefni, að haldið sé upp á afmæli Björgvins Guðmundssonar.  Og hafi þeir þökk sem að því standa. En hitt má ekki heldur gleymast, að æskustöðvar hans voru hluti af honum sjálfum. Hann var í þeim og þær í honum.  Á meðan menn muna Björgvin, á hugur þeirra einnig að leita heim í Rjúpnafell.

Höfundur er fyrrv. blaðamaður.

           

Nýjast