Björgvin einn af níu í lyfjaprófunarhópi ÍSÍ

Lyfjaeftirlitsnefnd ÍSÍ hefur valið níu íþróttamenn, fimm konur og fjóra karla, sem verða í skráðum lyfjaprófunarhópi fyrir árið 2011. Samkvæmt alþjóða lyfjareglunum ber þeim sem fara með lyfjaeftirlit meðal íþróttamanna að stofna skráðan lyfjaprófunarhóp.

Í hópnum eiga að vera fremstu íþróttamenn hvers lands. Við val á einstaklingum er tekið mið af stöðu viðkomandi á heimslista og þátttöku á stórum alþjóðlegum mótum. Meðal þeirra upplýsinga sem íþróttamennirnir þurfa að skila er keppnisáætlun fyrir tímabilið auk upplýsinga um hvar og hvenær æft er.

Íþróttamönnunum ber að tilgreina klukkustund dag hvern sem hentar vel til lyfjaprófunar. Markmiðið með því að stofna slíkan hóp er að auðvelda lyfjaprófun utan keppni á okkar besta íþróttafólki.

Eftirtaldir íþróttamenn eru í lyfjaprófunarhópnum:

Ásdís Hjálmsdóttir, spjótkastari

Ásgeir Sigurgeirsson, skotíþróttamaður

Bergur Ingi Pétursson, sleggjukastari

Björgvin Björgvinsson, skíðamaður

Helga Margrét Þorsteinsd., sjöþrautarkona

Ragnheiður Ragnarsdóttir, sundkona

Ragna Ingólfsdóttir, badmintonkona

Þorbjörg Ágústsdóttir, skylmingakona

Þormóður Árni Jónsson, júdómaður

Íþróttamennirnir þurfa að skila upplýsingum um staðsetningar ársfjórðungslega á komandi ári. Brot á reglum um skil á staðsetningarupplýsingum geta verið að upplýsingum sé ekki skilað innan tilskilins tíma, að upplýsingar sem skilað er séu ekki réttar eða ófullnægjandi, að íþróttamaður missi af lyfjaprófi sé hann ekki til staðar á uppgefnum stað og tíma og ekki er hægt að hafa uppi á honum í lyfjapróf án fyrirvara.

Brot á einhverju af framangreindu getur haft áminningu í för með sér, þrjár áminningar á 18 mánaða tímabili geta leitt til málsókn fyrir dómstóli ÍSÍ. Dómar vegna brota á skilum á staðsetningarupplýsingum geta haft í för með sér 12-24 mánaða útilokun frá æfingum og keppni.

Þetta kemur fram á mbl.is.

Nýjast