Soffía segir að árið 2010 hafi almennt verið betra en árið á undan og atvinnuleysistölur almennt lægri en þá var, að meðaltali voru um 200 færri á skrá á liðnu ári samanborið við árið 2009. „Við er þokkalega bjartsýn á að þetta mjakist hægt upp á við og sjáum ekki fram á að fjölgi á skránni eftir að febrúarmánuður er liðinn, versti tíminn er jafnan í janúar og febrúar en þá tekur að lifna við á vinnumarkaði. Það eru engin teikn á lofti um að staðan versni, við sjáum frekar fram á hægfara bata," segir Soffía.
Af þeim 713 sem eru á atvinnuleysisskrá á Akureyri eru 526 sem enga vinnu hafa en aðrir eru að hluta til í starfi og á atvinnuleysisbótum á móti, eða tæpur fjórðungur þeirra sem eru á skrá. „Okkur bárust engar tilkynningar um hópuppsagnir um þessi áramót, en eitthvað var um tilkynningar um skert starfshlutfall starfsmanna líkt og verið hefur undanfarin tvö áramót. Yfirleitt er um að ræða tímabundið ástand, dregið er tímabundið úr starfshlutfalli á fyrstu mánuðum ársins, en það svo fært til fyrra horfs þegar hjólin fara að snúast hraðar með hækkandi sól," segir Soffía.