Becromal Iceland kynnti Umhverfisstofnun úrbætur

Fulltrúar Becromal Iceland ehf. áttu í dag fund með Umhverfisstofnun til að kynna viðbrögð fyrirtækisins vegna bréfs stofnunarinnar þann 25. mars síðastliðinn. Í því var óskað úrbóta á þremur þáttum er varða starfsleyfi verksmiðjunnar og gefinn frestur til dagsins í dag til að leggja áætlun um úrbætur fyrir stofnunina.  

Svo sem fram hefur komið í fjölmiðlum hafa undanfarnar vikur staðið yfir breytingar á búnaði verksmiðjunnar sem stjórnar sýrustigi (pH-gildi) í frárennsli hennar. Eftir breytingar hefur mun meiri stöðugleiki verið á sýrustigi frárennslisins en enn frekari áætlanir um öryggiskerfi hvað þennan þátt varðar voru kynntar Umhverfisstofnun í dag. Ferli tilkynninga til UST hefur einnig verið breytt í verksmiðjunni og loks er að vænta mælibúnaðar til sívöktunar á fosfór og leiðni. Þessi þrjú atriði gerði Umhverfisstofnun athugasemdir við.

Becromal kynnti Umhverfisstofnun einnig í dag að Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans  á Akureyri (RHA) muni safna öllum fyrirliggjandi gögnum um rannsóknir á lífríki sjávar í nágrenni verksmiðju Becromal í Krossanesi. Skýrsla um þessi efni verður tilbúin fyrir 1. júní næstkomandi. Þá mun verkfræðistofan EFLA vinna umhverfisskýrslu fyrir Becromal og verður henni skilað til Umhverfisstofnunar fyrir 1. maí næstkomandi. Loks var Umhverfisstofnun kynnt í dag að Becromal Iceland stefni að innleiðingu á ISO 14001, vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi, fyrir 1. maí 2012.

Fundinn með fulltrúum Umhverfisstofnunar í dag sátu af hálfu Becromal Iceland ehf. þeir Gauti Hallsson, framkvæmdastjóri Becromal Iceland ehf., Luiciano Lolli, forstjóri Becromal samsteypunnar, aðaleiganda Becromal Iceland ehf. og dr. Gerd Schulz, stjórnandi umhverfis- og öryggismála hjá Epcos AG, sem er þýskt móðurfélag Becromal samsteypurnnar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Becromal Iceland ehf.

Nýjast