"Við höfðum spurnir af því að þarna gætu verið gaskútar innandyra en áttum ekki von á því að þar inni mættu okkur 25 fallbyssukúlur," sagði Þorbjörn. Maðurinn sem var inni í húsinu þegar sprengingin varð, var fluttur á slysadeild FSA með brunasár en til stendur að fljúga með hann suður á Landsspítalann. Hundur mannsins sem einnig komst út úr húsinu, fannst upp við dvalarheimilið Hlíð og hafði hann sviðnað nokkuð, að sögn Þorbjörns. Við sprenginguna rifnuðu upp járnplötur á þaki hússins, auk þess sem veggir sprungu út, svo mikill var krafturinn. Slökkvistarfi er lokið en slökkviliðsmenn standa vakt við húsið.