Baldvin Þór og Sandra María íþróttafólk ársins á Akureyri

Á myndinni eru frá vinstri: Guðrún Freysteinsdóttir og Húnn Snædal, afi og amma Baldvins Þórs og San…
Á myndinni eru frá vinstri: Guðrún Freysteinsdóttir og Húnn Snædal, afi og amma Baldvins Þórs og Sandra María Jessen íþróttakona ársins. Baldvin Þór fylgist með úr síma ömmu sinnar. Mynd: Þórir Tryggvason á vefsíðu Akureyrarbæjar

Hlauparinn Baldvin Þór Magnússon úr UFA er íþróttakarl Akureyrar 2023 og knattspyrnukonan Sandra María Jessen hjá Þór/KA er íþróttakona Akureyrar 2023. Í öðru sæti voru þau Hallgrímur Mar Steingrímsson knattspyrnumaður í KA og Helena Kristín Gunnarsdóttir blakkona í KA. Í þriðja sæti voru Alex Cambray Orrason lyftingamaður í KA og Hafdís Sigurðardóttir hjólreiðakona hjá HFA.

Kjöri íþróttamanns Akureyrar 2023 var lýst á Íþróttahátíð Akureyrar á vegum Íþróttabandalags Akureyrar og fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar sem fram fór í Menningarhúsinu Hofi seinnipartinn í dag, 31. janúar. Ellefu af tuttugu aðildarfélögum ÍBA tilnefndu alls 31 íþróttamann úr sínum röðum, 17 íþróttakonur og 14 íþróttakarla. Úr þeim tilnefningum var svo kosið á milli 10 karla og 10 kvenna sem stjórn Afrekssjóðs hafði stillt upp.

Öflugir einstaklingar

 Á hátíðinni veitti fræðslu- og lýðheilsuráð viðurkenningar til 12 aðildarfélaga ÍBA vegna 361 Íslandsmeistara á síðasta ári og Afrekssjóður veitti 9 afreksefnum styrki. Samtals hlutu því 19 einstaklingar afreksstyrki að þessu sinni.

Á athöfninni fékk ÍBA fyrirmyndahéraðsviðurkenningu ÍSÍ endurnýjaða, aðildarfélög sem áttu Íslandsmeistara og landsliðsfólk á liðnu ári fengu viðurkenningar og heiðursviðurkenningar fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar voru afhentar sex öflugum einstaklingum fyrir vel unnin störf í þágu félags-, íþrótta- og æskulýðsmála á Akureyri. Þau sem hlutu heiðursviðurkenningu í ár voru Dan Jens Brynjarsson (Skíðafélag Akureyrar), Fylkir Þór Guðmundsson (Íþróttafélagið Eik), Jóhann Gunnar Bjarnason (Knattspyrnufélag Akureyrar), Unnur Kristjánsdóttir (Sundfélagið Óðinn), Þórir Tryggvason (sjálfboðaliði og ljósmyndari) og Þórunn Sigurðardóttir (Íþróttafélagið Þór).

Þetta er í 45. sinn sem Íþróttamaður Akureyrar er kjörinn en það var fyrst gert árið 1979. Alls hafa 30 einstaklingar hlotið þetta sæmdarheiti, oftast allra júdókappinn Vernharð Þorleifsson, sjö sinnum alls.


Athugasemdir

Nýjast