Bæjarstjórn samþykkti tengingu Brálundar við Miðhúsabraut

Meirihluti bæjarstjórnar Akureyri samþykkti á fundi sínum í gær, tillögu skipulagsnefndar um breytingu á aðalskipulagi, þar sem gert er ráð fyrir að tengja Brálund við Miðhúsabraut. Kristín Sigfúsdóttir og Oddur Helgi Halldórsson greiddu atkvæði á móti tillögunni og Jóhannes Gunnar Bjarnason sat hjá við afgreiðslu málsins. Í skipulagstillögunni er gert ráð fyrir að Brálundartengingin við Miðhúsabraut verði skilgreind sem 30 km gata með hraðahindrunum.  

Fimm athugasemdir bárust við tillöguna. Í svari skipulagsnefndar kemur m.a. fram: "Hafin var lagning Miðhúsabrautar 2007 og lauk framkvæmdum við hana 2008. Með tilkomu hennar minnkaði álag mikið á Þingvallastræti en þó vantar tengingar við hana í dag til þess að dreifa álagi enn frekar af Skógarlundi og Mýrarvegi. Með tilkomu nýrrar verslunar við gatnamót Kjarnagötu og Miðhúsabrautar ætti aðgengi að versluninni úr vestari hluta Lundarhverfis að dreifast á fleiri tengingar með tilkomu Brálundartengingar við Miðhúsabraut sem annars færi um Mýrarveg. Með þessu er verið að dreifa umferð um svæðið og um leið freista þess ná sem mestri nýtingu á Miðhúsabraut. Skipulagsnefnd telur því að almannahagsmunir vegi meira samkvæmt ofangreindu og lagði því til við bæjarstjórn að tillagan yrði auglýst."

Nýjast