Bæjarstjóri ræði við Húnvetninga um mismunandi hagsmuni

Vegagerðin hefur að undanförnu kynnt tillögu um nýjan stofnveg, svonefnda Húnavallaleið, sem myndi stytta leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar um 14 km. Bæjarráð Akureyrar samþykkti á síðasta fundi sínum að fela bæjarstjóra að óska eftir fundi með sveitarstjórum Blönduóssbæjar og Húnavatnshrepps til þess að ræða mismunandi hagsmuni sveitarfélaganna.  

Fram kom á fundi bæjarráðs að Halla Björk Reynisdóttir L-lista og Njáll Trausti Friðbertsson D-lista fóru á fund umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, þann 8.mars sl. Tilgangur fundarins var að koma sjónarmiðum Akureyrarbæjar á framfæri varðandi styttingu leiðarinnar á milli Akureyrar og Reykjavíkur, en umhverfisráðherra á eftir að úrskurða um málið. Rætt var um umhverfislegan ávinning sem og fjárhagslegan ávinning íbúa Akureyrar í formi flutningskostnaðar, en ekki hvað síst um umferðaröryggi á umræddum köflum leiðarinnar.

Nýjast