Aukin samvinna stéttarfélaga í Alþýðuhúsinu

Gengið hefur verið frá samkomulagi fjögurra stéttarfélaga sem aðsetur hafa í Alþýðuhúsinu við Skipagötu um samnýtingu á þriðju hæð hússins, en félögin hafa eignast stuðurhluta þeirrar hæðar. Félögin sem um ræðir eru Félag verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri, Félag málmiðnaðarmanna, Sjómannafélag Eyjafjarðar og Félag vélstjóra og málmtæknimanna.   

Þrjú síðastnefndu félögin eiga 18% hlut hvert, en FVSA á 46% í hæðinni. Þá á Rafiðnaðarsambandið einnig hluta í hæðinni. Úlfhildur Rögnvaldsdóttir formaður Félags verslunar- og skrifstofufólks greindi frá því á aðalfundi í vikunni að félagið myndi sjá um ýmsa þjónustu fyrir hin félögin, m.a. símavörslu og upplýsingagjöf. Þá mun félagið sjá um að færa bókhald og skrá iðgjöld fyrir sjómenn og málmiðnaðarmenn. Úlfhildur sagði að búið væri að teikna breytingar á hæðinni þannig að skrifstofur verða við útveggi, en sameiginleg afgreiðsla í miðrými sem tekur við strax við inngang af stigapalli. Kvaðst hún vonast til þess að framkvæmdir hefjist fljótlega.

Nýjast