Ungmennafélag Íslands mun óska eftir umsókn frá sambandsaðilum og sveitarstjórnum um að taka að sér undirbúning og framkvæmd fyrsta Landsmóts UMFÍ 50+ sem haldið verður helgina 24.-26. júní 2011. Mótið er sérstaklega ætlað einstaklingum 50 ára og eldri. Framkvæmd mótsins verður í höndum Ungmennafélags Íslands, þeim sambandsaðila sem tekur mótið að sér og því sveitafélagi sem er á staðnum. Aðrir samstarfsaðilar eru Félag áhuga fólks um íþróttir aldraðra, FÁÍA, og Landssamband eldri borgara.
Fyrirhugaðar keppnisgreinar eru golf, pútt, sund, frjálsar, blak, hestaíþróttir, þríþraut, brids, boccía, skák, línudans, hjólreiðar og starfsíþróttir. Ásamt keppni verður ýmislegt fleira í boði eins og fræðsluerindi og fyrirlestrar um hreyfingu og næringu.