"Staðan er sú að enn er ekki búið að semja þó að á þriðjudaginn fyrir viku hafi legið á borðinu samningur sem hafði það að markmiði að þeir sem eru með lægstu launin fengju mest. Þegar skoðanakannanir fóru að birtast um að Íslendingar ætluðu að hafna Icesave-samningnum þá skelltu atvinnurekendur í lás og vildu ekki ræða málið fyrr en eftir atkvæðagreiðsluna. Þeir hafa einnig verið erfiðir vegna átaka við stjórnvöld um stjórn fiskveiða og hafa sagt að þeir skrifi ekki undir samning nema því máli yrði lokið í sátt við þá," sagði Björn m.a. og bætti við að það væri með ólíkindum að setja skilyrði með þessum hætti.
Björn sagði að samskiptin við stjórnvöld væru alveg hörmuleg og að hann myndi ekki eftir öðru eins. „Það er engu að treysta sem forustumenn ríkistjórnarinnar segja. En af hverju er ASÍ að tala við ríkistjórnina? Eru samningar ekki gerðir við SA? Jú, en það er svo margt sem þarf að tryggja, t.d hækka atvinnuleysisbætur, örorku- og ellilífeyrir. Það er ekki sjálfsagt að stjórnvöld hefðu ætlað að hækka þessar greiðslur. Við viljum líka verðtryggja persónuafsláttinn og ná til baka 3.000 krónunum sem voru í raun teknar af um síðustu áramót og svo næstu. Nú er verið að sækja launahækkanir til skamms tíma, því að langtímasamningur er ekki lengur í spilunum."
Björn sagði að mikið álagið hefði verið á skrifstofur félagsins á síðasta ári, eins og oft áður og þá sérstaklega vegna þessa mikla atvinnuleysis og vandamála sem af því leiðir. „Í lok árs 2010 voru 415 félagsmenn Einingar-Iðju á atvinnuleysisskrá, þ.e.a.s. þeir sem létu draga félagsgjöld af atvinnuleysisbótunum. Því miður er alltaf eitthvað um að fólk láti ekki draga af sér slík gjöld og tapi þar með réttindum hjá félaginu."
Björn talaði um að bættar samgöngur, með tilkomu Héðinsfjarðargangna, hefði þjappað félagsmönnum saman og að nú væru Siglfirðingar komnir öflugir inn í félagsstarfið okkar.
Sjálfkjörið var í stjórn og trúnaðarráð félagsins þar sem aðeins einn listi barst með tilnefningum. Stjórn Einingar-Iðju skipa nú: Björn Snæbjörnsson formaður, Matthildur Sigurjónsdóttir varaformaður, Halldóra H. Höskuldsdóttir ritari og síðan svæðisfulltrúarnir fimm, þau Guðrún Þorbjarnardóttir, Ingvar Sigurbjörnsson, Hafdís Kristjánsdóttir, Margrét Jónsdóttir og Marzibil E. Kristjánsdóttir, og formenn deildanna þriggja ásamt varaformanni stærstu deildarinnar, þau Anna Júlíusdóttir, Sigríður K. Bjarkadóttir, Ingvar Kristjánsson og Kristbjörg Ingólfsdóttir. Þetta kemur fram á vef Einingar-Iðju.