Fjöldi fólks tók hátt í hátíðarhöldum á Akureyri í dag, sem fram fóru í blíðarskaparveðri. Kjörorð dagsins eru; "Við viljum vinna!" Farið var í kröfugöngu, við undirleik Lúðrasveitar Akureyrar, frá Alþýðuhúsinu að Sjallanum, þar sem hátíðardagskráin fór fram. Í ávarpi 1. maí nefndar sagði m.a.: "Fjármálakreppan í heiminum og fall íslensku bankanna í kjölfarið hafa miklar og slæmar afleiðingar fyrir okkur öll sem búum á Íslandi. Reyndar gætir áhrifa kreppunnar víða í nágrannalöndum okkar. Þó að við hér á Norðurlandi höfum ekki tekið góðærið með „trukki og dýfu" þá tökum við á okkur allar þær slæmu afleiðingar ofþenslu og óráðsíu sem áttu sér stað á meðan best lét. Hér á svæðinu er mikið atvinnuleysi, en þó ekki alveg eins mikið og fyrir ári síðan. Það er algjörlega óviðunandi að 1.300 manns hafi ekki atvinnu á Norðurlandi eystra og þar af eru um 1.000 hér á Akureyri. Atvinnuleysi er eitt það versta sem getur komið fyrir nokkurn mann, það skapar mikla óvissu og leggur í rúst heilu fjölskyldurnar, þar sem öll plön til framtíðar eru fokin út í veður og vind.
Mikil óvissa er framundan. Vextir eru allt of háir, verðbólga of mikil, kaupmáttur hefur rýrnað verulega og atvinnuleysi er meira en við getum sætt okkur við. Þar að auki eru margir með uppsagnarbréf í vasanum og lifa í algjörri óvissu um framhaldið. Einnig er mikil óvissa á verktakamarkaðinum, þar hafa tilboð í verk farið lækkandi og baráttan um verkin harðnað. Það má öllum vera ljóst að verð á innfluttum vörum, tækjum, tólum og eldsneyti hefur farið hækkandi og því hlýtur það að bitna á launþegunum þegar verktakar þurfa að lækka tilboðsverðin og menn undirbjóða hvern annan.
Eins og staðan er í dag er alveg ljóst að ástandið mun ekki batna að neinu marki fyrr en á næsta eða þarnæsta ári. Í dag er farið að vora, sumarið á næsta leyti og allt farið að lifna við. Við skulum vona að það fari líka að vora hjá alþingismönnunum okkar og að þeir fari að hrinda í framkvæmd raunhæfum úrræðum fyrir fjölskyldur sem búa við skuldavanda og atvinnuleysi. En á þeim bænum hefur allt verið helfrosið. Við skulum vona að botninum sé náð í kreppunni, að við förum að sjá fram á betri og bjartari tíma og hjól atvinnulífsins fari að snúast með eðlilegum hætti.
„Við viljum vinna" eru kjörorð dagsins, og það á ákaflega vel við okkur Íslendinga því atvinnuþátttaka okkar er með því mesta sem gerist í heiminum.
„Við viljum vinna" segja allir þeir sem misst hafa vinnuna og hafa fyrir fjölskyldu að sjá.
„Við viljum vinna" segja öll þau ungmenni sem eru á atvinnuleysisskrá og hafa verið í sérstöku átaki hjá vinnumálastofnun.
„Við viljum vinna" segja allir nemarnir sem koma á vinnumarkaðinn nú í sumar.
„Við viljum vinna" segja allir þeir sem búa við skerta starfsgetu og þeir sem eru að ná sér eftir áföll, en þeim þarf að skapa tækifæri til að ná sér aftur á strik og svo störf við hæfi.
„Við viljum vinna" en við gerum það ekki fyrir hvað sem er.
Fjölmörg þeirra réttinda sem vinnandi fólki þykja sjálfsögð í dag þurfti mikla baráttu og oft fórnir til að fá samþykkt. Það á við um samningsrétt, uppsagnarfrest, fæðingarorlof, vinnuvernd, orlofsrétt, lífeyrissjóði, launajafnrétti, 40 stunda vinnuviku og margt fleira.
Lögin um almannatryggingar voru sett árið 1936, eftir baráttu verkalýðshreyfingarinnar. Með þeim var viðurkennt að allir í samfélaginu bæru ábyrgð á að framfleyta þeim sem ekki hefðu tök á því sjálfir. Til dæmis fólki sem lenti í slysi, veiktist eða missti vinnuna. Andstæðingar verkamanna héldu því meira að segja fram í fullri alvöru að almennileg samfélagsþjónusta myndi ýta undir veikindi og leti.
Á degi verkalýðsins eigum við að minnast þess að ekkert hefur áunnist án baráttu og þar skipta stéttarfélögin sköpum. Öfl frjálshyggjunnar komu okkur í mikla klípu og því er ljóst að nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt fyrir alla launþega þessa lands að standa saman svo endurreisnin takist sem allra best. Félagar stöndum saman um félögin okkar og verjum réttindi okkar," sagði Heimir.