Soffía Gísladóttir forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Norðurlandi eysta segir að nú sé besti tíminn framundan, verið sé að auglýsa fjölda sumarstarfa og þá hafi verið auglýst 900 ný störf fyrir námsmenn og atvinnuleitendur á vegum Velferðarráðuneytisins og Vinnumálastofnunar, en hluti þeirra mun skapast á Norðurlandi eystra. „Það er margt jákvætt í gangi og ástæða til að vera nokkuð bjartsýnn. Það sem hefur gerst hér á okkar svæði er að atvinnuleysi er á hraðri niðurleið. Fyrst eftir að kreppan skall á var gríðarlegt atvinnuleysi í fjórðungnum, en það hefur batnað með hverju misserinu sem liðið hefur," segir Soffía. Hún nefnir að í mars árið 2009 hafi atvinnleysi á Norðurlandi eystra verið 8,8%, í mars 2010 var það 7,9% og nú í mars síðastliðnum var það komið niður í 6,6%.
„Þróunin hjá okkur hefur verið jákvæð, mesti batinn er á Norðurlandi eystra þar sem atvinnuleysistölur hafa snarlækkað. Á öðrum landssvæðum, t.d. Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og á Suðurnesjum hefur ástandið versnað, en á öðrum svæðum hefur það nokkurn veginn staðið í stað á sl. tveimur árum" segir Soffía. Hún segir ástæðuna ekki þá að fólki hafi fækkað í fjórðungnum, íbúum hafi t.d. fjölgað á Akureyri.
„Ég held að skýringa geti verið að leita í menningu svæðisins, hér er mikil samvinna og samkennd til staðar," segir hún. Þá nefnir hún að ferðaþjónusta sé öflug, svæðið sé mikil vetrarparadís og hingað sæki fjöldi ferðamanna allt árið um kring. „Mér finnst fólk á svæðinu almennt vera jákvætt og menn leita allra leiða til að skapa atvinnu, nýafstaðin Nýsköpunarhelgi er dæmi um gott framtak sem örugglega skilar árangri."