Atvinnu- og nýsköpunarhelgin á Akureyri í apríl

Atvinnu- og nýsköpunarhelgin verður haldin í Háskólanum á Akureyri helgina 15.-17. apríl nk. Hópur áhugafólks um atvinnusköpun og framfarir ýtti verkefninu úr vör.  Fjöldi aðila kemur að verkefninu en frá byrjun var mikil áhersla á aðkomu Háskólans á Akureyri.  Í stuttu máli gengur helgin þannig fyrir sig að þeir sem hafa nýsköpunar- og viðskiptahugmyndir koma saman og lýsa sinni hugmynd fyrir hinum.   

Bestu hugmyndirnar eru valdar og halda þær áfram í vinnu þar sem allir leggja saman kraftana.  Þátttaka er ókeypis og opin öllum 18 ára  og eldri. Skráning og allar frekari upplýsingar er á http://www.ana.is/. Atvinnu- og nýsköpunarhelgin snýst um að virkja fólk til athafna. Allir geta tekið þátt, bæði þeir sem eru með hugmynd og þeir sem vilja vinna með teymi af fólki sem er með viðskiptahugmynd. Markmiðið með helginni er að fólk byrji að vinna að frumgerð á vöru eða þjónustu. Innovit, nýsköpunar- og frumkvöðlasetur kemur að skipulagningu með ANA teyminu og stýrir dagskrá helgarinnar. Á þriðja tug frumkvöðla og aðila með víðtæka reynslu og menntun verða þátttakendum til aðstoðar. Í upphafi kynna þátttakendur hugmyndir sínar og í framhaldinu er kannað hvaða hugmyndir fengu mestan hljómgrunn og unnið er áfram með þær yfir helgina í markvissu hópastarfi. Stutt erindi eru flutt til fræðslu og hvatningar við vinnuna. Að helginni lokinni geta þátttakendur síðan unnið áfram með vel mótaðar viðskiptahugmyndir og látið þær verða að veruleika. Verðlaun verða veitt í nokkrum flokkum. Atvinnu- og nýsköpunarhelgin er fyrst og fremst tækifæri fyrir Norðlendinga þó hún sé öllum opin, segir í fréttatilkynningu. 

Nýjast