Ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2010 samþykktur

Ársreikningur Akureyrarbæjar fyrir árið 2010 var samþykktur með 11 samhljóða atkvæðum við síðari umræðu á fundi bæjarstjórnar sl. þriðjudag. "Bæjarstjórn fagnar niðurstöðu ársreiknings Akureyrarbæjar og þakkar starfsfólki bæjarins gott samstarf um framkvæmd fjárhagsáætlunar á árinu 2010," segir m.a. í bókun bæjarstjórnar.

"Það reyndi verulega á alla starfsemi bæjarins á árinu. Starfsfólk bæjarins brást við af mikilli ábyrgð og lagðist á eitt til þess að tryggja að dregið yrði úr kostnaði eins og mögulegt var. Fyrir það ber að þakka," segir ennfremur.

Eins og fram hefur komið gekk rekstur Akureyrarbæjar, fyrir fjármagnsliði, vel árið 2010 og betur en áætlanir gerðu ráð fyrir. Sjóðsstreymi var einnig ágætt. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 1.406 millj.kr. en var jákvæð um 1.675 millj. kr. eftir fjármagnsliði. Er það liðlega 600 milljóna króna  betri afkoma en áætlanir gerðu ráð fyrir en í áætlun samstæðunnar var jákvæð afkoma áætluð 1.075 millj.kr. Helstu ástæður betri rekstrarárangurs eru hærri tekjur og lægri fjármagnskostnaður en áætlun gerði ráð fyrir. Heildarskuldir lækka um 1.152 milljónir króna frá fyrra ári.

Nýjast