Ánægja Norðlendinga könnuð

Sundlaug Húsavíkur á fallegum sumardegi. Mynd úr safni/epe
Sundlaug Húsavíkur á fallegum sumardegi. Mynd úr safni/epe

Landshlutasamtök sveitarfélaga standa sameiginlega að íbúakönnun á Íslandi. Könnunin tekur til þátta varðandi almenna velferð íbúa, ánægju þeirra og framtíðaráform, vinnumarkað og búsetuskilyrði. Er hún hugsuð sem mikilvægt greiningartæki fyrir sveitarstjórnarfólk og aðra sem sinna byggðamálefnum.

Þeir sem lenda í úrtaki hafa fengið tölvupóst föstudaginn 28. ágúst þar sem óskað er eftir þátttöku þeirra. SSV hvetur alla þá sem lenda í úrtaki að svara spurningakönnuninni til að niðurstöðurnar verði sem marktækastar en hvert svar hefur mikla þýðingu.

Norðurland eystra er nú með í könnuninni í fyrsta sinn en hún nær nú til landsins alls.
Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) hafa um árabil gert könnun á sínu svæði og undanfarin ár hafa fleiri landshlutasamtök tekið þátt.

Vífill Karlsson, hagfræðingur hjá SSV leiðir þessa vinnu í samráði við landshlutasamtökin, en hann hefur einnig staðið fyrir fyrirtækjakönnun á Vesturlandi um árabil sem einnig hefur verið útvíkkuð til annarra landshluta. Stefnt er að því að báðar þessar kannanir verði framkvæmdar reglulega. Í samtali við Vikublaðið segir Vifill að með könnun sem þessari fáist mikilvægar upplýsingar um stöðu landshlutanna og þróun.

„Könnunin hefur sagt okkur mjög mikið um veikleika og styrkleika í hverjum landshluta fyrir sig en hverjum landshluta (eins og Vesturlandi) er yfirleitt skipt upp í fjóra minni samstæðari landshluta. Það hefur gefið atvinnuþróunarstarfi SSV betri forsendur til að rækja skyldur sínar gangvart íbúunum og sveitarfélögunum. Starfsmenn SSV þekkja miklu betur hug íbúanna eftir að kannanirnar fóru af stað. En aðstæður breytast hratt, eins og mikilvægi nettenginga og umhverfismál eru dæmi um, og þess vegna þarf að gera svona kannanir með reglubundnum hætti,“ segir Vífill og bætir við að niðurstöður kannana af þessu tagi séu oft eina marktæka mælitækið á ánægju íbúa með þjónustu sveitarfélaga, innviði, umhverfi og almenna lífshamingju. Niðurstöðurnar geti því verið afar gagnlegar fyrir sveitarstjórnarfólk og landshlutasamtök þegar kemur að forgangsröðun verkefna," segir Vífill.


Athugasemdir

Nýjast