Ályktað um atvinnumál, Reykjavíkurflugvöll og Vaðlaheiðargöng

Aðalfundur Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, sem haldinn var sl. laugardag, hvetur ríkisstjórn Íslands til að stuðla ákveðið að því að stórefla atvinnulífið í Þingeyjarsýslum sem allra fyrst. Aðalfundurinn bendur á að skoðanakannanir meðal íbúanna á undanförnum árum sýna glögglega að þeir setja fram kröfu um að nýting orkuauðlinda héraðsins fari til stórfelldrar atvinnuuppbyggingar á svæðinu.  

Bent er á að íbúaþróun á Norðausturlandi er neikvæð. Árið 2000 voru íbúarnir samtals 5.700. Í dag eru þeir um 4.900. Þessar tölur sýna að grípa verður til aðgerða, sérstaklega á sviði atvinnumála. Viðamiklar rannsóknir hafa verið gerðar á mögulegri orkuöflun fyrir atvinnuuppbyggingu í stórum stíl í Þingeyjarsýslum og bendir aðalfundurinn á að orkukaupendur hafa sýnt svæðinu áhuga. Aðalfundur Félags málmiðnaðarmanna Akureyri telur að einsýnt að tími framkvæmda er runninn upp í Þingeyjarsýslum.

Einnig var á fundinum samþykkt ályktun um Reykjavíkurflugvöll en þar segir:  Aðalfundur Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, varar ákveðið við hugmyndum um að flytja miðstöð innanlandsflugs frá Reykjavíkurflugvelli. Aðalfundurinn bendir á að á næstu árum rís í höfuðborginni  hátæknisjúkrahús, sem ætlað er að þjóna  landinu öllu. Mikilvægi nálægðar flugvallarins og sjúkrahússins er ótvírætt að mati aðalfundarins og getur skipt sköpum, auk þess sem flugvöllurinn gegnir lykilhlutverki í öryggisneti landsins. Þá minnir aðalfundurinn að í höfuðborgini eru staðsettar höfuðstöðvar stjórnsýslu landsins, auk flestra opinberra stofnana landsins á sviði viðskipta-, mennta-, menningar- og heilbrigðismála. Sú staðreynd kallar eðlilega á greiðar samgöngur til og frá borginni, öðruvísi getur Reykjavík varla staðið undir nafni sem höfuðborg allra landsmanna. Aðalfundurinn bendir einnig á nauðsyn þess fyrir íbúa höfuðborgarinnar  að hafa sem næst sér flugvöll, óvarlegt sé að treysta alfarið á Keflavíkurflugvöll.

Þá var á fundinum samþykkt eftirfarandi ályktun um Vaðlaheiðargöng: Aðalfundur Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, skorar á ríkisstjórn landsins að fram fari sem fyrst forval vegna gerðar Vaðalheiðarganga, þannig að hægt verði að hefja framkvæmdir í sumar. Aðalfundurinn bendir á að öll gögn eru þegar til staðar, auk þess sem sveitarfélögin á svæðinu eru einhuga um mikilvægi væntanlegra jarðganga, auk þess sem mikil samstað er meðal íbúa svæðisins. Göngin munu stórauka öryggi vegfarenda, ekki síst íbúa austan Vaðalheiðar sem þurfa að sækja margháttaða þjónustu, svo sem bráðaþjónustu á heilbrigðissviði um Víkurskarð í dag. Aðalfundurinn bendir á að heimamenn styðja áætlanir um hóflegt veggjald um göngin, þannig að fjárfestingin skili sér til baka á eðlilegum tíma. Þá undirstrikar aðalfundurinn að fyrir liggja jákvæðar úttektir á arðsemi Vaðlaheiðarganga.

Nýjast