30. október - 6. nóember - Tbl 44
Alþýðusamband Norðurlands Markvisst verið dregið úr heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni
Hver vill ekki hafa aðgengi að lækni og öðru heilbrigðisstarfsfólki í sinni heimabyggð? Alþýðusamband Norðurlands varpar þessari spurningu fram í ályktun um heilbrigðismál sem samþykkt var á þingi þess nýverð. Öflug heilbrigðisþjónusta séu sjálfsögð mannréttindi.
Krefst AN þess að stjórnvöld tryggi jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn, óháð búsetu, aldri eða efnahag. Hagræðing og aukin samþjöppun heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni má ekki felast í því að kostnaður sé færður yfir á sjúklinga, aðstandendur og stéttarfélög meðan ríkið losar sig undan ábyrgð.
Einfaldlega ekki boðleg staða
Áhrif hagræðingar sjáist einna best á landsbyggðinni þar sem markvisst hafi verið dregið úr sérfræðiþjónustu, skurðstofum sem og fæðingardeildum lokað og læknaskortur er viðvarandi. Afleiðingarnar eru að sjúklingar og aðstandendur þeirra þurfa að ferðast langar vegalengdir, oft við erfiðar aðstæður, með óheyrilegum kostnaði og óþægindum. Þetta á ekki síst við um barnshafandi konur og fjölskyldur þeirra sem í mörgum tilfellum þurfa að flytjast búferlum milli landshluta þar sem sérhæfð fæðingaraðstoð er ekki til staðar nema á fáeinum stöðum á landinu. „Slík staða er einfaldlega ekki boðleg,“ segir AN.
Nefnir AN í ályktun sinni að hægt sé að bæta úr með því að auka verulega rekstrarfé til Sjúkrahússins á Akureyri og annarra heilbrigðis- og hjúkrunarheimila á Norðurlandi. Auk þess verði greiðsluþátttökukerfið endurskoðað, þar með talið kostnaður sjúklinga og aðstandenda, vegna vinnutaps, ferðalaga og dvalar í takt við útgjöld þeirra á hverjum tíma.