Almenn ánægja er með snjómoksturinn á Akureyri samkvæmt skoðanakönnun sem gerð var fyrir Akureyrarbæ á vetrarþjónustu og fram kemur í minnisblaði sem tekið var fyrir á fundi umhverfis-og mannvirkjaráðs. Á árinu 2016 var skipaður starfshópur sem var ætlað að fara yfir skipulag á snjómokstri hjá sveitarfélaginu og kanna leiðir til að draga úr kostnaði og/eða bæta þjónustu við vegfarendur. Í því sambandi átti að líta til snjómoksturs og hálkuvarna annars vegar á götum bæjarins og gangstígum hins vegar.
Rúmlega 97% svarenda eru ánægð með núverandi forgang í mokstri gatna. Tæplega 93% svarenda eru ánægð með forgang í mokstri göngu-og hjólastíga og rúmlega 75% er sátt við hversu langt snjómokstur er kominn þegar það fer af stað á morgnana.
Mokstur fyrr á morgnana
Í starfshópnum var einnig farið yfir áherslur í snjómokstri og breytt forgangi þar sem ástæða þótti til. Lögð var áhersla á að hefja mokstur stíga fyrr en verið hafði þannig að þegar þörf þykir þá byrjar mokstur stíga og gatna kl. 5 á morgnana. Stofnstígar svo sem göngu- og hjólastígar milli bæjarhluta fá forgang í hreinsun ásamt helstu leiðum sem liggja að skólum, leikskólum, strætóbiðstöðvum og helstu stofnunum bæjarins.
Þær götur sem njóta forgangs í snjómokstri eru stofnbrautir, helstu tengibrautir m.a. að neyðarþjónustu eins og sjúkrahúsi, lögreglu, slökkviliði, strætisvagnaleiðum og fjölförnum safngötum. Húsagötur eru ekki mokaðar nema þær séu þungfærar einkabílum eða stefni í að þær verði þungfærar og ef von er á hláku.
Fyrst og fremst brekkur og gatnamót hálkuvarin
Þau svæði gatna sem eru hálkuvarin í bænum eru fyrst og fremst erfiðar brekkur og gatnamót. Til hálkuvarna er notað brotið malarefni sem hefur gott viðnám (kornastærð 2-6 mm). Til að minnka svifryk er fínefnið sigtað frá og einnig er efnið blandað lítillega með salti (5-7%). „Saltið minnkar rykmyndun og gerir það að verkum að auðveldara er að vinna með efnið í frosti,“ segir í minnisblaðinu.