Allskonar fólk, jafnrétti og vöfflur með rjóma

Jafnréttisdögum 2024 er lokið en áfram heldur vinnan
Jafnréttisdögum 2024 er lokið en áfram heldur vinnan

„Það sem stóð upp úr varðandi Jafnréttisdaga í ár var hve einstaklega fræðandi þeir voru. Það var mikilvægt að beina kastljósinu að málefnum fólks af erlendum uppruna og naut ég þess mjög að heyra bæði sjónarhorn stjórnmálafólks af erlendum uppruna á rafræna opnunarviðburðinum og sjónarhorn kvenna af erlendum uppruna á málþingi um jaðarsetningu í HA. Kynning Kristínar Hebu á stöðu fatlaðra var sláandi og vona ég að unnið verði með niðurstöður skýrslu hennar til að bæta stöðu þeirra. Ég held að við höfum öll lært eitthvað nýtt á Jafnréttisdögum sem við getum tekið með okkur inn í árið.“ segir Sæunn Gísladóttir, fulltrúi HA í stýrihóp Jafnréttisdaga, um hvað henni fannst standa upp úr núna í ár.

Árlega standa allir háskólar landsins fyrir Jafnréttisdögum og hafa þeir verið haldnir frá árinu 2009. Þema ársins 2024 var inngilding, jaðarsetning og aðför að mannréttindum. Í HA voru haldnir fjórir viðburðir í tengslum við dagana sem voru bæði vel sóttir og mörg sem nýttu sér að horfa á þá í streymi. Efni fyrirlestra var jaðarsetning fólks af erlendum uppruna, ADHD í námi og daglegu lífi og staða fólks með örorkumat, endurhæfingarlífeyri og örorkustyrk. Hægt er að finna upptökur á Facebooksíðu Jafnréttisdaga og frekari upplýsingar um Jafnréttisdaga á nýrri vefsíðu.Jafnréttisdaga á nýrri vefsíðu.

Berglind Hólm Ragnarsdóttir, lektor við félagsvísindadeild og formaður jafnréttisráðs HA, segir að í allri baráttu fyrir jafnrétti sé mikilvægt að búa til vettvang fyrir fólk sem upplifir mismunun og jaðarsetningu í samfélaginu til að segja frá þeirra reynslu. „Á Jafnréttisdögum er lagt upp úr því að hafa fjölbreytta viðburði þar sem vakin er athygli á málefnum ólíkra hópa, bæði út frá niðurstöðum rannsókna frá sérfræðingum á sviðinu en einnig út frá sjónarhorni einstaklinganna sjálfra. Mér finnst þetta hafa tekist nokkuð vel í ár þökk sé öllu fólkinu sem gaf tíma sinn til þess að taka þátt í þessu með okkur,“ bætir hún við.

Skipulagning og framkvæmd daganna gekk vel samkvæmt Sæunni en ásamt henni í stýrihóp eru tveir jafnréttisfulltrúar frá Háskóla Íslands og verkefnisstjóri Jafnréttisdaga. „Við skipulögðum heildarumgjörðina og sameiginlegu viðburði háskóla landsins, svo sem rafrænu opnunina og viðburðinn Orð og ímyndir stríðs. Við verkefnalistann í ár bættist ný vefsíða Jafnréttisdaga sem við hlutum styrk fyrir í samstarfssjóði háskólanna á vegum háskólaráðuneytisins. Það var mjög gleðilegt að fá í fyrsta sinn vefsíðu undir dagana og geta miðlað betur upplýsingum um þá þar. Það var sérstaklega ánægjulegt hve góðir og fjölbreyttir viðburðirnir voru í HA og ég er afar þakklát þátttakendum sem komu og gáfu tímann sinn, meðlimum Jafnréttisráðs sem stóðu fyrir vöfflukaffi fyrir tæplega 80 manns, nemendum og starfsfólki, sem sóttu viðburðina af miklum áhuga á Akureyri,“ segir Sæunn að lokum.

Við óskum öllum til lukku með vel heppnaða Jafnréttisdaga og hvetjum öll til að fylgjast með áframhaldandi vinnu á nýju vefsvæði Jafnréttisdaga.


Athugasemdir

Nýjast