„Aldrei verið sterkari en núna”

Úrslitakeppnin á Íslandsmóti karla í íshokkí hefst í dag þegar SA Víkingar og SR mætast í Skautahöll Akureyrar kl. 17:00. SA hefur titil að verja en SR komst ekki í úrslitakeppnina í fyrra og því ljóst að þeir eru hungraðir í titilinn. Vinna þarf þrjá leiki til þess að landa Íslandsmeistaratitlinum. Jón Benedikt Gíslason, fyrirliði SA, segir liðið vera í góðu standi fyrir úrslitakeppnina

„Þetta verður örugglega hörkubarátta en við höfum aldrei verið sterkari en einmitt núna," segir Jón.

Steinar Páll Veigarsson fyrirliði SR er kokhraustur fyrir einvígið. „Við erum að fara vinna þetta, það er bara þannig,” segir Steinar hvergi banginn. Nánar er rætt við þá félaga um úrslitakeppnina í nýjasta tölublaði Vikudags.

Annar leikur liðanna verður háður þriðjudaginn 1. mars fyrir sunnan og þriðji leikurinn fimmtudaginn 3. mars á Akureyri. Komi til fjórða og fimmta leiks verður sá fjórði spilaður í Reykjavík sunnudaginn 6. mars og fimmti leikurinn á Akureyri þriðjudaginn 8. mars.

Nýjast