Akureyri vann og mætir HK í undanúrslitum

Akureyri vann níu marka sigur gegn Fram, 35:26, er liðin mættust í Höllinni á Akureyri í kvöld í lokaumferð N1-deildar karla í handbolta. Akureyringar enda deildina með 33 stig í efsta sæti en Fram 23 stig í þriðja sæti. Á sama tíma lagði FH lið HK í Kópavogi, 29:27, sem þýðir að HK endar í fjórða sæti deildarinnar og mætir Akureyri í undanúrslitum Íslandsmótsins en FH mætir Fram. Úrslitakeppnin hefst eftir slétta viku, fimmtudaginn 14. apríl, og verður fyrsti leikur Akureyrar og HK á heimavelli norðanmanna.

Leikurinn í Höllinni í kvöld bar þess merki að lítið var undir fyrir bæði lið sem rúlluðu þó nokkuð á liðinu. Varnarjaxlinn Hreinn Þór Hauksson kom aftur inn í lið Akureyrar eftir fjarveru vegna meiðsla og eru það góð tíðindi fyrir norðanmenn nú þegar vika er í úrslitakeppnina. Akureyri hafði forystu allan fyrri hálfleikinn og mestur varð munurinn sex mörk, 16:10, en heimamenn höfðu fimm marka forystu í hálfleik, 17:12.

 

Akureyringar héldu þægilegu forskoti allan seinni hálfleikinn og komst í 21:14 fljótlega í seinni hálfleik og þegar tíu mínútur voru liðnar var staðan orðin 23:15.

Heimamenn héldu forystunni út leikinn höfðu níu marka sigur. Lokatölur, 35:26.

Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 10 (5 úr vítum), Oddur Gretarsson 6 (2 úr vítum), Guðmundur Hólmar Helgason 6, Daníel Einarsson 6, Heimir Örn Árnason 4, Hörður Fannar Sigþórsson 2, Hreinn Þór Hauksson 1.

 

Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 14 (1 víti), Stefán Guðnason 2.

 

Mörk Fram: Jóhann Karl Reynisson 5, Andri Berg Haraldsson 5, Arnar Birkir Hálfdánarsson 4, Halldór Jóhann Sigfússon 4 (3 úr vítum), Matthías Daðason 2, Róbert Aron Hostert 2, Einar Rafn Eiðsson 1, Magnús Stefánsson 1.

Varin skot: Björn Viðar Björnsson 10 (1 úr víti)

      

Nýjast