Akureyringar gerðu tvær breytingar í liði sínu í kvöld en þeir Bergvin Gíslason og Halldór Logi Árnason komu inn í byrjunarliðið fyrir þá Hörð Fannar Sigþórsson og Guðlaug Arnarsson sem báðir glíma við lítilsháttar meiðsli.
Vörn Akureyrar bar þess merki í leiknum enda hafa þeir Guðlaugur og Hörður spilað þar stóru rullu í vetur. Hvorugt liðið bauð upp á merkilegan fyrri hálfleik sem var slakur og hreinlega leiðinlegur. Bæði lið skutu illa markið og vörnin var ekki í hávegum höfð hjá hvorugu liðinu. Hafþór Einarsson átti þó fínan hálfleik í marki Aftureldingar en hann varði 9 skot gegn sínum gömlu félögum.
Akureyri komst í 3:1 og tveggja til þriggja marka forystu fram að stöðunni 8:6 en Afturelding komst yfir 9:8 þegar sautján mínútur voru liðnar af leiknum. Sú staða entist í heilar átta mínútur og segir það sitt um sóknarleik beggja lið í fyrri hálfleik. Gestirnir komust tveimur mörkum yfir þegar skammt var til hálfleiks og héldu þeim mun út hálfleikinn.
Staðan í leikhléi, 13:11, Aftureldingu í vil.
Afturelding byrjaði fyrri hálfleikinn af krafti. Hafþór hélt áfram að verja eins og bersekur og Mosfellingar komust fjórum mörkum yfir, 16:12. Akureyringar tóku þá við sér og jöfnuðu í 16:16 um miðjan hálfleikinn. Leikurinn var í járnum næstu mínútur þar sem eitt til tvö mörk skildu liðin að en Bjarni Fritzson virtist einna helst finna leið framhjá Hafþóri í marki gestanna af sóknarmönnum Akureyrar.
Leikmenn Aftureldingar voru hins vegar sterkari á lokasprettinum og komust þremur mörkum yfir, 23:20, þegar hálf mínúta var eftir og úrslitin ráðin.
Lokatölur, 24:21 fyrir gestina. Með sigrinum er Afturelding öruggt um sæti í umspili um áframhaldandi sæti í deildinni en Selfoss er fallið. Síðasta umferð deildarinnar fer fram nk. fimmtudag þar sem Akureyri tekur á móti Fram.
Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 8 (4 úr vítum), Oddur Gretarsson 3 (2 úr vítum), Guðmundur Hólmar Helgason 3, Halldór Logi Árnason 2, Daníel Einarsson 2, Heimir Örn Árnason 2, Bergvin Gíslason 1.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 13.
Mörk Aftureldingar: Þrándur Gíslason 7, Sverrir Hermannsson 6, Reynir Ingi Árnason 3, Bjarni Aron Þórðarsson 3 (2 úr vítum), Jóhann Jóhannsson 2, Arnar Freyr Theódórsson 2, Ásgeir Jónsson 1, 1.Varin skot: Hafþór Einarsson 26.