Akureyri og Haukar skyldu jöfn í hörkuleik

Akureyri og Haukar gerðu í kvöld 29:29 jafntefli í hörkuskemmtilegum handboltaleik í Höllinni á Akureyri í N1- deild karla. Leikurinn var hraður og skemmtilegur þar sem sóknarleikurinn var í hávegum hafður. Aldrei munaði nema tveimur mörkum á liðunum og skiptu liðin á að hafa forystu. Akureyringar áttu síðustu sókn leiksins en tókst ekki að færa sér það í nyt og endanum skiptu liðin stigunum á milli sín og sanngjarnt jafntefli niðurstaðan.

Fyrri hálfleikur leiksins var hníjafn og stál í stál allan tímann. Haukar byrjuðu af krafti og komust í 3:1 og 5:3 og virkuðu vel stemmdir. Akureyringar jöfnuðu í 5:5 og eftir það munaði aldrei meira en einu marki á liðunum út hálfleikinn. Freyr Brynjarsson var magnaður í liði Hauka í fyrri hálfleik en hann skoraði 8 mörk. 

Sveinbjörn Pétursson fann sig ekki framan af fyrri hálfleik í marki Akureyrar en hann varði ágætlega þegar líða tók á hálfleikinn. Hann varði sex bolta sem telst ekki ýkja hátt á hans mælikvarða. Það var lítið hægt að kvarta yfir sóknarleik Akureyrar í fyrri hálfleik, sem hefur verið helst akkilesarhæll liðsins, og þar var Bjarni Fritzson fremstur meðal jafningja með 7 mörk.

Staðan í háfleik, 18:18.

Seinni háfleikurinn var líkt og sá fyrri hníjafn en Akureyri komst fyrst tveimur mörkum yfir í stöðunni, 24:22, þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Munurinn var þó aldrei meiri en tvö mörk og skiptust liðin á að hafa forystuna.

Lokamínúta leiksins var spennuþrungin, vægast sagt. Akureyri hélt í sókn þegar mínúta var eftir og staðan jöfn, 29:29. Heimamenn fengu dæmt vítakast þegar 40 sekúndur voru til leiksloka. Bjarni Fritzson fór á vítapunktinn en Birkir Ívar Guðmundsson varði. Haukar héldu í sókn en Halldór Logi Árnason gerði vel með að stela boltanum og Akureyringar tóku leikhlé þegar 20 sekúndur voru eftir.

Heimamönnum tókst að ekki galdra fram mark á þessum tuttugu sekúndum og Birkir Ívar Guðmundsson varði frá Heimi Erni Árnasyni í þann mund sem flautan gall. Brotið var á Heimi og því aðeins aukakastið eftir sem vörn Hauka tók.

Lokatölur, 29:29.

Akureyri hefur 29 stig á toppnum en Haukar fara upp í 20 stig í þriðja sæti. Fari svo að FH tapi fyrir Val í kvöld verða Akureyringar deildarmeistarar.

Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzason 11 (4), Guðmundur Hólmar Helgason 5, Oddur Gretarsson 4, Heimir Örn Árnason 4, Daníel Einarsson 2 , Hörður Fannar Sigþórsson 3.

Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 19.

Mörk Hauka: Freyr Brynjarsson 9, Stefán Rafn Sigurmannsson 6 (1), Tjörvi Þorgeirsson 5,  Þórður Rafn Guðmundsson 3, Heimir Óli Heimisson 1, Björgvin Þór Hólmgeirsson 1, Sveinn Þorgeirsson 1.  

Varin skot: Birkir Ívar Guðmundsson 11, Aron Rafn Eðvarðsson 5.

Nýjast