Eftir leiki gærdagsins í N1-deild karla í handbolta er það orðið ljóst hvaða fjögur lið leika í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn þetta árið þrátt fyrir að ein umferð sé eftir. Það verða nýkrýndir deildarmeistarar Akureyringar, FH, Fram og HK.
Það er ljóst að nýjir Íslandsmeistarar verða krýndir þar sem Haukar, sem eru núverandi meistarar, verða ekki með í ár.Síðasta umferð deildarkeppninnar fer fram fimmtudaginn 7. apríl og þá mætast eftirfarandi lið:
19.30 | Höllin Akureyri | Akureyri - Fram | ||
19.30 | Digranes | HK - FH | ||
19.30 | Ásvellir | Haukar - Valur | ||
19.30 | Varmá | Afturelding – Selfoss |
Það verður lítið undir í síðustu umferðinni annað en það að þá ræðst hvaða lið mætast í úrslitakeppninni. Akureyri og FH eru í tveimur efstu sætunum og fá heimaleikjaréttinn í undanúrslitum og Akureyri einnig í úrslitunum sjálfum komist þeir þangað.
Akureyri mætir liðinu sem endar í fjórða sæti deildarinnar í undanúrslitum en það verður annað hvort Fram eða HK. Fram er stigi á undan HK í þriðja sæti og eins og staðan er núna myndu Akureyri og HK mætast í úrslitakeppninni og FH og Fram.
Það kemur hins vegar allt í ljós eftir tæpa viku hvernig úrslitakeppnin raðast en hún hefst þann 14. apríl.