Akureyri í lykilstöðu eftir útisigur gegn Val

Akureyri gerði sér lítið fyrir og sigraði Val með þriggja marka mun, 27:24, í Vodafonehöllinni í dag í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum N1- deildar karla í handbolta. Akureyri er þar með komið 1:0 yfir í einvígi liðanna en vinna þarf tvo leiki til þess að komast í úrslit. Líkt og í undanförnum leikjum voru norðanmenn hálf rænulausir í byrjun leiksins í dag og Valsmenn höfðu tögl og haldir lengst af í fyrri hálfleik og náðu mest fimm marka forystu, 8:3.

Akureyri fór að þétta sinn leik þegar á leið fyrri hálfleikinn, vörnin small í gang og sóknarleikurinn með og norðanmenn minnkuðu muninn hægt og bítandi. Það var ekki síst fyrir góða innkomu Hafþórs Einarssonar í marki Akureyrar undir lok fyrri hálfleiks að aðeins munaði einu marki þegar flautað var til leikhlés. Staðan hálfleik 14:13 fyrir heimamenn.

Akureyringar héltu uppteknum hætti í seinni hálfleik og skoruðu fyrstu þrjú mörkin í leiknum og breyttu stöðunni úr 14:13 í 14:16 sér í vil. Valsmenn urðu kærulausir og það tók þá heilar tíu mínútur að komast á blað í seinni hálfleik.Akureyri náði fjögurra marka forystu, 21:17, þegar 13 mínútur voru eftir að leiknum. Valsmenn gáfust ekki upp og minnkuðu muninn í eitt mark, 21:22, þegar fjórar mínútur lifðu leiks. Norðanmenn héldu hins vegar haus og unnu mikilvægan útisigur og eru komnir í lykilstöðu í einvíginu.

Oddur Grétarsson skoraði 11 mörk fyrir Akureyri þar af 6 úr vítum og Hörður Fannar Sigþórsson kom næstur með 6 mörk. Hafþór Einarsson átti fræbæra innkomu í marki Akureyrar og varði 18 skot.

Arnór Þór Gunnarsson var markahæstur í liði Vals með 10 mörk en Fannar Friðgeirsson kom honum næstur með 7 mörk. Hlynur Morthens átti frábæran leik í marki Valsmanna og varði 20 skot.

Næsti leikur liðanna fer fram á heimavelli Akureyrar næstkomandi laugardagskvöld kl. 20:00. Það lið sem vinnur fyrr tvo leiki leikur til úrslita og því geta norðanmenn komist í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn með sigri á laugardaginn.

Nýjast