Akureyrarklíníkin stofnuð formlega á föstudag
Stofnun Akureyrarklíníkurinnar - þekkingar- og ráðgjafarmiðstöðvar um ME sjúkdóminn og langvarandi eftirstöðvar COVID-19 fer fram föstudaginn 16. ágúst kl. 14 í Menntaskólanum á Akureyri (Kvosinni).
Haldin verða nokkur stutt erindi og heilbrigðisráðherra og forstjórar Sjúkrahússins á Akureyri og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands undirrita samstarfsyfirlýsingu um stofnun klíníkurinnar.
Myalgic encephalomyelitis (ME) er alvarlegur krónískur taugasjúkdómur sem veldur flókinni og víðtækri vanvirkni í ónæmiskerfi með bólgum í heila og mænu, og vöðvaverkjum. Helstu einkenni eru afbrigðileg óregla í tauga-, ónæmis- og innkirtlakerfunum ásamt skertum efnaskiptum frumuorku og flutningi jóna. Afleiðingarnar eru óeðlileg örmögnun við áreynslu, langvarandi þreyta og máttleysi, ásamt öðrum einkennum sem draga úr líkamlegri og andlegri getu fólks til að inna af hendi hversdagsleg verk.
Líkamleg og andleg áreynsla leiðir til verri einkenna. Endurtekið þreytuástand hverfur ekki jafnvel eftir hvíld. Sjúkdómurinn getur komið fram skyndilega eða smám saman. Ekki er vitað um orsakir sjúkdómsins.
ME er skammstöfun á enska heitinu Myalgic Encephalomyelitis en „myalgic“ stendur fyrir vöðvaverki og „encephalomyelitis“ fyrir bólgur í heila eða mænu.
Hluti þeirra sem fengu COVID-19 glíma við eftirstöðvar með ME líkum einkennum. Með stofnun Akureyrarklíníkurinnar er ætlunin að efla þjónustu við einstaklinga með ME og langvarandi eftirstöðvar COVID-19, stuðla að samfélagslegri vitundarvakningu, standa að skráningu og nýta tækifæri til rannsókna.
Akureyrarklíníkin mun hafa samhæfandi hlutverk á landsvísu og leiða samstarf við Landspítala og aðra aðila sem sinna ME sjúklingum svo sem endurhæfingarstofnanir og sérfræðilækna á stofum.
Athugasemdir