Akureyrarbær gerir vel við barnafólk og tekjulágar fjölskyldur

Frá Akureyri
Frá Akureyri

Að undanförnu hefur því verið haldið fram af fulltrúum minnihlutans í bæjarstjórn Akureyrar að sveitarfélagið hlunnfari fjölskyldufólk. Því fer fjarri. Staðreyndin er sú að þær breytingar sem gerðar hafa verið á gjaldskrá og afsláttarkjörum í leik-og grunnskólum sveitarfélagsins hafa orðið til þess að tekjulágt fjölskyldufólk ætti að hafa töluvert meira á milli handanna en áður var. Enn fremur hefur verið samþykkt að lækka þær gjaldskrár sem snúa að börnum og viðkvæmum hópum frá 1. september nk. eins og samkomulag við sveitarfélögin kvað á um í tengslum við kjarasamninga og alltaf stóð til að gera. Allt tal um að sveitarfélagið hafi ekki ætlað að taka þátt í því verkefni eru orðin tóm og beinlínis rangfærslur sem líklega er ætlað að slá nokkrar pólitískar keilur.  

 

Breytingar auka ráðstöfunarfé foreldra 

Um síðustu áramót voru gerðar umfangsmiklar breytingar á gjaldskrá leikskóla á Akureyri. Stærsta breytingin er sú að skólatíminn frá kl. 8-14 er gjaldfrjáls og skólatími umfram það hefur einnig lækkað nema fólk nýti 8,5 klukkstundir á dag en einungis í þeim tilvikum er um 3,5% hækkun að ræða miðað við það sem var fyrir ári síðan. Einnig var afsláttarkjörum breytt og nú hefur verið farin sú leið að miða við tekjur heimilis en ekki einungis hjúskaparstöðu og þannig er með afsláttarkjörum komið til móts við tekjulágt sambúðarfólk. Þessi breyting hefur tekist vel og falla nú mun fleiri foreldrar undir afsláttarkjör en áður. Með þessu er verið að koma til móts við fjölskyldur í bænum, sérstaklega þær tekjulægri sem greiða nú mun lægri leikskólagjöld.

 

Eftir þessar breytingar hafa tekjur Akureyrarbæjar vegna skólagjalda lækkað umtalsvert. Áætlað er að þau gjöld sem foreldrar greiða á þessu ári fyrir leikskólavist verði 85 milljónum króna lægri en var árið 2023 sem er um 34% lækkun milli ára. Þetta er umtalsverð tekjuskerðing fyrir bæjarsjóð en um leið er komið til móts við fjölskyldufólk óháð hjúskaparstöðu.

 

Með breytingum á gjaldskrá leikskólanna lækka útgjöld allra nema þeirra sem nýta fullan skóladag, eða 8,5 klst. en það fólk þarf að greiða 3,5% meira en áður ef það á ekki rétt á tekjutengdum afslætti.  

Taflan að neðan sýnir greiðslur foreldra sem ekki njóta afsláttarkjara nú í samanburði við greiðslur skólagjalda í september 2023:

 

Hér er hvorki tekið tillit til tekjutengds afsláttar né fjölskylduafsláttar.  

Tilraunarinnar virði 

Leið Akureyrarbæjar er tilraun til þess að koma til móts við barnafjölskyldur, hver sem hjúskaparstaða foreldra er. Auðvitað eru öll svona kerfi mannanna verk og þeim má breyta ef árangurinn reynist ekki vera sem skyldi. Bæjaryfirvöld hafa ekki orðið vör við annað en að almenn ánægja sé með breytinguna, þó svo að aldrei sé hægt að koma til móts við þarfir allra. Í ljósi breyttra forsenda í kjarasamningum um lengd vinnuviku var mikilvægt að bæta starfsaðstæður í leikskólum og er ljóst að mjög jákvæðar vísbendingar eru um árangur hvað það varðar. Ekki ber á öðru en að breytingar á gjaldskrám hafi verið tilraunarinnar virði og gott betur en það.

Fyrir hönd meirihluta bæjarstjórnar Akureyrar:

Heimir Örn Árnason

Hlynur Jóhannsson

Hulda Elma Eysteinsdóttir

 


Athugasemdir

Nýjast