Akureyrarbær eykur hlut sinn í Flokkun Eyjafjarðar

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að auka hlutafé bæjarins í Flokkun ehf. um allt að 37,5 milljónir króna og vísaði þeirri afgreiðslu til gerðar fjárhagsáætlunar næsta árs.  

Hermann Jón Tómasson formaður bæjarráðs og formaður stjórnar Flokkunar Eyjafjarðar ehf. sendi inn erindi til bæjarráðs fyrir hönd félagsins þar sem óskað var eftir að eigendur Flokkunar ehf. samþykki hlutafjáraukningu í félaginu um 50 milljónir króna og staðfesti jafnframt þátttöku í þeirri hlutafjáraukningu sem svarar til hlutfallslegrar eignar þeirra í félaginu.

Einkahlutafélagið Flokkun Eyjafjörður ehf. var stofnað 24. maí 2007 af sömu aðilum og stóðu að byggðasamlaginu Sorpeyðing Eyjafjarðar bs., en því var slitið 1. júlí 2007. Á sama tíma tók Flokkun við öllum rekstri sem Sorpeyðing Eyjafjarðar bs. hafði með höndum ásamt öllum skyldum byggðasamlagsins. Eigendur lögðu eignarhlut sinn í Sorpeyðingu Eyjafjarðar bs. fram sem hlutafé í Flokkun og þannig eru eigendurnir þeir sömu og stóðu að byggðasamlaginu.  Þetta eru öll sveitarfélögin á Eyjafjarðarsvæðinu: Akureyrarbær, Arnarneshreppur, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Fjallabyggð, Grýtubakkahreppur, Hörgárbyggð og Svalbarðsstrandarhreppur.

Nýjast