25. júlí, 2007 - 17:39
Fréttir
„Stóra Lúkasarmálinu" er ekki lokið þótt hundurinn Lúkas hafi verið fangaður í gildru í Fálkafelli ofan Akureyrar fyrr í vikunni. Eftir stendur að einhver hópur manna bar ljúgvitni hjá lögreglu í málinu og aðrir hótuðu ungum manni m.a. á netinu. Voru þær hótanir alvarlegar og jafnvel um morðhótanir að ræða. Þessir aðilar verða sóttir til saka. Erlendur Þór Gunnarsson, lögmaður unga mannsins sem fyrir hótununum varð, hefur sagt að allt að 70 manns geti átt von á ákærum vegna alvarlegra hótana í garð skjólstæðings síns og einnig verður kært fyrir meiðyrði. Þá liggur fyrir að einhver fjöldi manns bar vitni hjá lögreglu og lýsti misþyrmingum á hundinum sem höfðu átt að leiða til dauða hans. Lögreglan hefur ekkert látið uppi um hver verði framvinda málsins.