Áhugi á að byggja starfsemi einangrunarstöðvarinnar upp

Félagið Holdi ehf. hefur verið með rekstur í einangrunarstöð nautgripa í Hrísey undanfarin fjögur ár og þar eru nú ríflega 20 gripir af Galloway og Limousine kyni.  Áhugi er fyrir því að efla starfsemina í eynni enda sjá eigendur félagsins tækifæri til uppbyggingar á þessu sviði þar.  

Holdi ehf. er í eigu Ólafs Agnarssonar, Almars Björnssonar og Kristins Árnasonar.  Ólafur segir að félagið hafi verið í rekstri undanfarin fjögur ár og nú eru í stöðinni 18 kýr, tvær kvígur og tvö naut.  Á meðal gripa er síðasta hreina Limousine kýrin sem eftir er í landinu og hefur hún aldrei annars staðar verið en í Hrísey, kom sem fósturvísir þangað árið 1999.  Uppistaðan í bústofninum eru þó kýr af Galloway kyni, sú elsta er fædd árið 1993 og mun bera í vor.  Þá er í hópnum ein kýr af Angus Aberdeen og Galloway blöndu.  „Mér vitanlega eru ekki lengur til í landinu kýr af Angus kyni," segir Ólafur.

Ólafur segir að þeir félagar sjái  tækifæri á að byggja upp og efla starfsemina, enda virðist áhugi bænda á fastalandinu á gripum af Galloway og Limousine kyni vera mikill.  „Við prófuðum að auglýsa kálfa til sölu síðastliðið haust og er skemmst frá því að segja að áhuginn var mikill, þeir fóru allir og fengu færri en vildu.  Vegna þessa mikla áhuga langar okkur að þróa þetta áfram og það yrði líka jákvætt fyrir Hrísey þar sem er mikið atvinnuleysi um þessar mundir ef tækist að skapa fleiri atvinnutækifæri," segir Ólafur. "Við höfum mikinn áhuga fyrir að byggja þetta upp og bæta við. Það væri gaman ef bændur t.d. þeir sem eiga nautgripi af öðru hvoru kyninu eða aðrir sem sjá sér hag í því að vera með myndu hafa samband við okkur."

Nýjast