Afsláttur af gatnagerðargjöldum á Akureyri

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti einróma á fundi sínum nýlega að veita 20% afslátt af gatnargerðargjöldum í bænum frá 1. janúar 2011 til 30. júní 2012. Hér er um umtalsverðar fjárhæðir að ræða og má sem dæmi nefna að veittur afsláttur fyrir 150 m2 einbýlishús er um 600.000 kr. Einnig verður veittur sérstakur afsláttur vegna jarðvegsdýpis sem getur numið allt að 29% umfram hin almenna 20% afslátt.  

Að sögn Eiríks Björns Björgvinssonar, bæjarstjóra, er þetta fyrst og fremst gert í von um að það megi verða til að örva nýbyggingar í bænum. „Með þessu viljum við koma til móts við hækkandi kostnað vegna nýbygginga og vitum að þessari ráðstöfun verður tekið fagnandi. Vonandi stuðlar þetta einnig að því að byggt verði á sem flestum af þeim lóðum sem við höfum til ráðstöfunar," segir Eiríkur.

Loks er þess að geta að á Akureyri eru í gildi reglur sem kveða á um sérstakan afslátt af viðbyggingum. Þar kemur fram að aðeins þarf að greiða 40% af gatnagerðargjaldi fyrir viðbyggingu allt að 30 m².

Nýjast